Sigurjón M. Egilsson, ritstjóri Miðjunnar, telur Hörð Ægisson, ritstjóra Markaðarins hjá Fréttablaðinu, vera ómerking orða sinna. Hörður hefur undanfarið farið hörðum orðum um verkalýðsforystuna í leiðaraskrifum sínum og kallað forystuna lýðskrumara og sjálfskipaða byltingasinna en dregur ekki í land í leiðara dagsins, þrátt fyrir undirritun samninga.
Lífskjarasamningar verkalýðsins voru undirritaðir í vikunni og þykja um margt vera einsdæmi, einkum vegna aðkomu stjórnvalda. Hörður dregur þó ekki í land í leiðara sínum í Fréttablaðinu í dag þar sem hann kallar verkalýðsforystuna reynslulitla.
„Reynslulitlir leiðtogar hinnar nýju herskáu verkalýðshreyfingar rákust harkalega á hinn efnahagslega veruleika við fall WOW air.“
Sigurjón telur að með þessum orðum sé Hörður að sýna fram á að hann kunni ekki að skammast sín og að hann sé ómerkingur orða sinna.
„Varla er unnt að sjá að hinn herskái Hörður dragi í land eða að hann kunni að skammast sín,“ skrifar Sigurjón og bendir á leiðara Harðar þar sem hann sakar verkalýðsforystuna um að vekja falsvonir meðal almennings um stórfelldar launahækkanir.
Sigurjón tók dæmi úr einum nýlegum leiðara Harðar þar sem Hörður fór hörðum orðum um leiðtoga verkalýðsins. Þar sagði Hörður meðal annars:
„Það er þess vegna ekki aðeins mikilvægt heldur nauðsynlegt að mun fleiri – stjórnendur fyrirtækja, stjórnmálamenn og núverandi og fyrrverandi áhrifamenn í verkalýðshreyfingunni – stígi fram og bendi á ruglið. Með sama framhaldi, þar sem sjálfskipuðum byltingarsinnum með takmarkað umboð á bak við sig, hálfgert eyland, er leyft að einoka umræðuna án mótspyrnu, stefnir að öðrum kosti í óefni.“
Nú eftir að lífskjarasamningurinn hefur verið undirritaður sem felur í sér ýmsar aðgerðir til að bæta stöðu lágtekjufólks segir Sigurjón:
„Í ljósi þess hvernig til tókst er víst að Hörður er ómerkingur orða sinna.“