Einstæð móðir er við það gefast upp á húsnæðisleit, en hún hefur verið heimilislaus síðan í janúar. Alls staðar virðist hún koma að lokuðum dyrum og leigusalar vilja fremur leigja til para, heldur en einstæðra mæðra.
Dögg Halldórsdóttir og 7 ára dóttir hennar misstu húsnæði sitt í janúar. Síðan þá hefur Dögg verið í stöðugri leit að nýju húsnæði í Innri-Njarðvík, því þar gengur dóttir hennar í skóla. Hún skrifaði nýlega ákall á Leigusíður á Facebook þar sem hún óskar eftir hjálp og segist vera á barmi uppgjafar. Í samtali við DV sagði hún að staðan væri erfið og mjög þreytandi.
„Ég er búin að vera að gera dauðaleit síðan og Reykjanesbær hefur ekki getað hjálpað, það er alveg tveggja ára bið eftir húsnæði hjá þeim. Ég er að reyna að sækja um og hef fengið frekar mörg nei. Þannig maður er orðinn svartsýnn. Þetta er mjög erfitt. Maður veit ekki alveg í hvorn fótinn maður á að stíga í því maður er bara orðinn viss um að fá nei. Þetta verður bara þreytt. Ég er eiginlega uppgefinn og það er meira en að segja það.“
Hún dvelur nú hjá vinkonu sinni í Garðinum á meðan dóttir hennar flakkar milli hennar, föður síns, ömmu sinnar og afa. Sökum stöðunnar dvelur dóttir Daggar aðeins hjá henni um helgar.
„Í hvert sinn sem hún kemur til mín segir hún við mig: „Mamma ég hata þetta, ég vil vera hjá þér“. Þetta er svo sárt, hún veit hvað er í gangi, hún skilur ótrúlega margt.“
Verst þykir barninu að geta ekki haft gæludýrin sín hjá sér, tvo fressa sem eru henni afar kærir.
„Hún vill auðvitað helst að við gætum haft kisustrákana okkar hjá okkur. Þeir eru hjá mömmu minni í pössun í Mosó en þeir fá ekkert að fara út þar. Hún hefur kallað eldri köttinn bróður sinn frá því að hún byrjaði að tala. Fyrsta orðið hennar var bara kisa.“
Dögg skoðaði íbúð að Ásbrú, en þar hefur leiguverð hækkað mikið eftir endurbætur á blokkunum og tekið hefur verið fyrir gæludýrahald.
„Það eru svo margir sem eru sóðar og eru ekki að þrífa upp eftir hundana sína. Börn eru að ganga úti og menn eru að vinna út og það er hundaskítur út um allt.“
Hún hitti fyrir eiganda húsnæðisins sem staðfesti að það væri sökum sóðaskapar sem gæludýrahald hefði verið bannað.
Fyrir mánuði síðan lenti Dögg í því að bíl, sem var nýlega kominn í hennar eigu, var stolið og fannst í kjölfarið í rúst. Þar sem eigendaskipti höfðu ekki formlega átt sér stað í opinberum skráningum, vill lögreglan ekki gefa henni neinar upplýsingar um framvindu málsins.
„Eftir mínum grun vissi sá sem stal bílnum úr minni vörslu að ég væri húsnæðislaus einstæð móðir.“
Hún gerir ráð fyrir að hún sé búin að sækja um á fimmta tug íbúða síðan hún endaði á götunni.
„Ég hef sótt um nánast allt sem ég finn. Einu sinni komst ég svo nálægt íbúð að ég var búin að sækja pappíra hjá Leiguskjóli varðandi trygginguna. Ég var búin að skrifa undir mitt nafn og svo átti bara eftir að ganga frá málunum. Þá fékk ég bara nei, það væri búið að leigja öðrum.“
Þá hafði par skipt um skoðun og ákveðið að þiggja leiguhúsnæðið á síðustu stundu og leigusalar eru hrifnari af því að leigja til para, heldur en til einstæðra mæðra.
„Það er bara meira öryggi í pörum heldur en einstaklingum. Það er algengasta svarið.“
Fyrirtækið Leiguskjól hefur hins vegar reynst Dögg afar vel.
„Leiguskjól eru frábær og ég mæli með þeim. Þeir hafa staðið sig ótrúlega vel og eiga hrós skilið. Þeir hafa alveg verið til í að hjálpa mér í hvert einasta skipti sem ég hef hringt og þegar ég þurfti á því að halda að fá aukalán þá var það bara ekkert mál. Ég stend alltaf í skilum og því er bara ekkert mál. Þetta er svo þægilegt. Þeir eru æði“
Fyrir dóttur sína vill Dögg helst finna húsnæði í Innri Njarðvík, en leitin endalausa er þó farin að taka á.
„Þetta verður svo erfitt. Maður verður þreyttur á að sækja um og vera farin að búast fyrir fram við að fá nei.“
Hún er einnig þakklát vinum og fjölskyldu sem hafa aðstoðað hana undanfarna mánuði. Annars veit hún varla hvar hún væri í dag.
„Ég hef verið heppin að ég hef fjölskyldu og vini sem ég hef getað haft samband við og hjálpað bæði fjárhagslega og andlega. Mjög heppin. Það eru margir sem hefðu kannski ekki verið svona heppnir“