„Ég var búin að fá nóg. Ég er klassískur listamaður og lagði allt í að standa mig sem þingmaður, ég vildi alvöru breytingar í þjóðfélaginu. Þegar ég hætti á þingi var ég komin með kulnun og hef verið að vinna mig út úr henni síðan. Kulnun er grafalvarleg og dregur úr manni allan mátt. En nú er sólin farin að hækka á lofti og ég finn að sköpunarkrafturinn er að koma aftur.“
Þetta segir Birgitta Jónsdóttir, einn stofnenda Pírata og fyrrverandi þingmaður, í viðtali á vefnum Lifðu núna. Hún segist lifa undir fátækramörkum þar sem mörg þau verkefni sem hún sinnir nú séu ólaunuð.
„Ég á svo erfitt með að segja nei. Oft eru þetta verkefni sem ekkert er borgað fyrir svo enn á ný er ég komin undir fátækramörk. En ég er nú svo sem vön því og kippi mér ekkert upp við það. Það eina sem ég vildi óska að ég hefði getað nýtt af þeirri reynslu sem ég fékk á Alþingi er tengslanetið sem ég aflaði mér. Ég hefði viljað geta nýtt það í þágu þjóðarinnar. Ég kynntist stjórnmálamönnum út um allan heim og margskonar samtökum. Mér finnst leiðinlegt að kasta þessu á glæ. En ég er nú þannig gerð að ef ég fæ ekki byr í seglin sný ég mér að einhverju öðru og það er nóg af skemmtilegum tækifærum í heiminum,“ segir Birgitta.
Hún segist þó hafa í nógu að snúast. Hún er til að mynda nýkomin af bókmenntaráðstefnu í Ástralíu. „Á ráðstefnunni var meðal annars fjallað um það ekki má tala um, leyndarmálin okkar. Ég flutti fyrirlestur um sjálfsvíg og hvaða áhrif þau hafa á aðstandendur. Í fyrirlestrinum ræddi ég meðal annars um hvað er að gerast inní manni þegar einhver nákominn fellur fyrir eigin hendi. Eftirlifendur eru fullir af sektarkennd þegar þeirra nánustu fara á þennan hátt. Ég kynntist mörgu skemmtilegu fólki á ráðstefnunni rithöfundum og stjórnmálamönnum. Fólki sem brennur í skinninu að breyta og bæta samfélögin sem það er sprottið uppúr,“ segir Birgitta.