
Þegar verð á pítsum eru borin saman milli landa, þá þarf að horfa á allar breytur. Aðrar þjóðir hafa það fram yfir Ísland að þar er launakostnaður og hráefniskostnaður lægri. Þetta sagði Þórarinn Ævarsson, framkvæmdastjóri IKEA í Bítinu á Bylgjunni í morgun þar sem hann var fenginn til að ræða um færslu Gunnars Smára Egilssonar, stofnanda sósíalistaflokksins, frá því um helgina þar sem hann sýndi verð á margarítapítsum nokkurra landa til að undirstrika okur í verðlagningu á Íslandi. Þórarinn telur þó að pítsastaðir gætu, með úrræðasemi, fundið leið til að lækka verð og auka sölu.
DV greindi í gær frá færslu Gunnar Smára þar sem hann greindi frá því að honum hafi blöskrað verð á margarítupítsum. Í færslunni bar hann saman verð á slíkum pítsum í nokkrum löndum og kom Ísland illa út í samanburðinum.
Þórarinn segir að málið sé ekki svo einfalt.
„Þetta er ekki alveg eins einfalt og Gunnar Smári vill láta. Það eru tvær stórar breytur í veitingarekstri sem mestu skipta, það er annars vegar launakostnaður og hins vegar hráefniskostnaður og við erum mikið, mikið dýrari heldur en útlöndin.“
Í IKEA eru seld hráefni og deig til pítsugerðar svo Þórarinn hefur grófa hugmynd um hráefnaverð á Íslandi, þó svo tólf áru séu liðin frá því að hann starfaði hjá Dominos.
„Ég er að borga rúmlega 1400 krónur fyrir kílóið af osti. Kílóið kostar 570 krónur í Bandaríkjunum, það munar um minna. Pepperoni kostar 2235 krónur hjá mér og kostar 820 krónur í Bandaríkjunum. Svo ég tók bara einfalda pítsu, margarítu með pepperoni, það er eitthvað sem margir geta kannast við og hráefniskostnaður á Íslandi fyrir tólf tommu pítsu er 513 krónur gróflega séð á meðan sama pítsa í Bandaríkjunum kostar 254, svo það er meira en helmingsmunur.“
Síðan er það launakostnaðurinn, sem er mun stærri breyta. Miðað við tímalaun í næturvinnu, með öllum launatengdum kostnaði, fyrir starfsmann í Eflingu eða VR, reiknar Þórarinn með að sé um 4100 krónur rúmar.
„Sömu laun í Bandaríkjunum eru 1000 krónur. Það er rúmlega fjórfaldur munur. Þannig að þegar uppi er staðið þá er það þannig að maður selur pítsu á íslandi, 12 tommu pítsu, þú ert búinn að borga laun og hráefni, þá eru eftir 1200 krónur, gróflega séð. Sama pítsa í Bandaríkjunum, þá er eftir þúsund kall.“
Þórarinn er samt ekki alfarið að verja pítsastaðina sem hann segir að hafi fjölgað ótæpilega hérlendis síðan hann var í bransanum. Fjölgun staða fylgi mikill fastur kostnaður.
„Það væri vit að skera niður staðina aðeins, stækka þá, og ná aðeins meira út úr mannskapnum. Þar liggur sóknarfærið, að mínu mati, þannig að pítsan gæti kannski verið á þúsund krónur minna.“
Hann mælir með því þeim sem mislíki verðin á pítsum, eldi þær bara sjálfir heima hjá sér.
„Þannig þegar Þórarinn vill fá þrefalt pepperoni þá bara setur hann þrefalt pepperoni og það er ekkert verið að snuða hann um það. Þannig þetta er fínt heimasport, þetta er fjölskyldusport og það er nú svo ótrúlegt að mest selda varan í IKEA er pítsadeig.“
En hvers vegna lækka veitingamenn ekki verð til að auka sölu ? Skortir þá kjart eða hver er ástæðan?
„Eina skýringin er svo ljót að ég fer ekki með hana í útvarp.“