Lögreglumaður hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu var í gær sakfelldur fyrir líkamsmeiðingu af gáleysi. Hann var sýknaður af ákæru fyrir brot í opinberu starfi. Lögreglumaðurinn þarf að greiða 200 þúsund króna sekt í ríkissjóð en sæta fjórtán daga fangelsi verði sektin ekki greidd innan fjögurra vikna. Auk þess þarf hann að greiða brotaþolanum rúma tvær og hálfa milljón í skaðabætur.
Fréttablaðið greinir frá þessu.
Atvikið átti sér stað fyrir tveimur árum við Hamborgarabúlluna við Dalveg í Kópavogi. Óskað var eftir aðstoð lögreglu þangað vegna tveggja ölvaðra manna. Mennirnir streittust á móti handtöku og eru lögreglumennirnir þá sagðir hafa beitt þá miklu ofbeldi, svo miklu að annar þeirra tvífótbrotnaði.
Sjá einnig: Tveir lögreglumenn kærðir fyrir gróft ofbeldi – Sagðir hafa lamið liggjandi mann ítrekað með kylfu
Ítarlega var greint frá atvikinu á sínum tíma. Vitni sagði þá að lögreglumennirnir hafi dregið upp kylfur og ítrekað lamið annan manninn þar sem hann lá á jörðinni. Síðan hafi hinum manninum verið ýtt inn í lögreglubíl og hafi annar lögreglumaðurinn skellt bílhurðinni margoft á fætur hans auk þess að lemja hann ítrekað með lögreglukylfu.