Pitsuverðlagsmálið vindur enn upp á sig. Birgir Örn Birgisson, framkvæmdastjóri Domino‘s hringdi inn í Bítið á Bylgjunni til að benda á enn aðra breytu sem vantaði inn í samanburð Gunnars Smára Egilssonar, sósíalista, á pitsuverðlagi. Sú breyta er heimsendingarkostnaðurinn. Rúsínan í pitsuendanum á málflutningi hans var þó án efa er hann gef til kynna að þessa væri skammt að vænta að heimsendingardrónar tækju til starfa hjá Domino‘s.
Birgir segir Gunnar bera saman epli og appelsínur. Samanburður Gunnars Smára hafi miðað við matseðilsverð en ekki tekið með í reikninginn kostnað við heimsendingar.
„Ef við tökum Noreg sem dæmi þar er heimsendingargjaldið 89 norskar krónur, sem er rétt um 1246 krónur, svo ég sé nákvæmur, að þetta hefur auðvitað mjög mikil áhrif á verðlagið.“
„Ef þú til dæmis tekur stóra pitsu sótta hjá okkur með tveimur áleggstegundum þá kostar hún 1840 krónur.“
„Þarna er verið að bera saman epli og appelsínur.“
Heimsendar pitsur kosti eðlilega meira en sóttar. „Fyrir okkur kostar bara, raunkostnaður meira en 1000 krónur að senda pítsu heim.“
„Ef við skoðum þetta í stóru samhengi, þá vantar þessa aukabreytu“
Hann segir jafnframt að hugmyndir Þórarins Ævarssonar, sem fjallað var um fyrr í dag, um að fækka stöðum og lækka verð, gangi ekki upp.
„Þá myndi bara hreinlega allt fara á hliðina á Facebook.“
Þar vísar Birgir til þess að svo mikið er að gera stundum í verslunum Domino‘s að ekki gengi upp að anna eftirspurn með færri stöðum og kallar hann starfsmenn Domino‘s: „hvunndagshetjur að halda öllu á floti.“
Þáttastjórnendur spurðu hvort til skoðunar hefði komið að nota dróna við heimsendingar.
„Heyrðu veistu bara hvað það er vonandi ekki svo langt í það.“
Í öðrum óspurðum fréttum tók Birgir fram að uppáhalds pitsan hans væri El Dorado og minnti hlustendur Bylgjunnar á að í dag er þriðjudagur, sem hjá Domino‘s er pitsadagur. Miðstærð af pitsu með þremur áleggjum á 1000 krónur.
„Á næsta ári verðum við með 10 ára afmæli þessa tilboðs á sama verði.“