Laust fyrir klukkan fjögur í nótt var maður handtekinn á bensínstöð í Árbænum fyrir að hafa veist að starfsmanni þar og hótað honum.
Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar. Segir einnig frá því að hálfníu í gærkvöld tilkynnti ökumaður um að ekið hefði verið á bíl hans en ökumaður hins bílsins ók í burtu án þess að stöðva. Lögreglumenn höfðu upp á bílnum nokkru síðar og var einn handtekinn grunaður um að hafa ekið bílnum undir áhrifum áfengis og fyrir að hafa yfirgefið vettvang án þess að stöðva.
Laust fyrir miðnætti réðst maður á dyraverði í miðbænum en hafði ekki erindi síns erfiðis og var yfirbugaður af dyravörðum. Maðurinn var mjög óstýrlátur og því færður á lögreglustöð og þar sem ástand hans skánaði lítið þar var hann vistaður í fangaklefa.
Laust fyrir fjögur i nótt var síðan karlmaður handtekinn á skemmtistað í miðbænum fyrir að slegið dyraverði og var hann vistaður í fangaklefa.