Þrír menn, líklega á milli tvítugs og þrítugs, veittust snemma í kvöld að 14 ára unglingi í Bryggjuhverfi. Mennirnir stigu út úr hvítum bíl, hlupu að unglingnum og höfðu í hótunum við hann. Pilturinn var á rafmagnsvespu og með hjálm. Hjálmurinn skemmdist í átökum við mennina en drengurinn slapp ómeiddur frá þeim og hringdi á lögregluna.
Lögreglan taldi sig kannast við einn árásarmanninn eftir lýsingu piltsins og leitaði hún mannanna þriggja í kvöld en ekki er staðfest að þeir hafi verið handteknir.
Móðir drengsins staðfesti í samtali við DV að drengurinn væri ómeiddur. Hann vill lítið ræða um árásina og ber sig eins og hann sé ekki illa haldinn eftir viðskiptin við mennina. Mennirnir virkuðu á piltinn eins og þeir væru í mjög annarlegu ástandi, líklega af völdum vímuefna.