Margir starfsmenn WOW air eru mjög illa staddir eftir gjaldþrot fyrirtækisins í vikunni. Ekki bara missir fólk vinnuna og fær ekki uppsagnarfrest greiddan heldur fær það engin laun um þessi mánaðamót. VR lánar félagsmönnum sínum fyrir launum um mánaðamótin á meðan beðið er eftir greiðslum úr ábyrgðarsjóði launa. Sú afgreiðsla tekur langan tíma og einnig tekur það töluverðan tíma fyrir fólk að komast á atvinnuleysisbætur. Margir starfsmenn WOW air eru ekki í VR, þar á meðal flugfreyjur.
Í umfjöllun RÚV um þetta mál kemur fram að flugfreyjum WOW air hafi verið vísað á Mæðrastyrksnefnd og Hjálparstofnun kirkjunnar um aðstoð. Í viðtali við RÚV segir Kristón Þórdís Þorgilsdóttir flugfreyja:
„Það var ekki viðbúið, þó að maður vissi að þetta gæti farið svona. Okkur var sagt að það væri til launasjóður. Og maður vissi í raun ekki að þetta gæti gerst. Að það væri bara í alvörunni þannig að enginn mundi grípa þig ef félagið færi í gjaldþrot. Við áttum aldrei von á að standa uppi með ekkert.”
Nokkur dæmi eru um hjón eða pör þar sem báðir aðilar voru við störf hjá WOW air. Á þeim heimilum er skellurinn sérlega stór því báðar fyrirvinnurnar eru launalausar um þessi mánaðamót.