Fyrir um tveimur klukkustundum voru nokkrar björgunarsveitir á höfuðborgarsvæðinu kallaðar út vegna göngumanns á Esju. Var sá að ganga hefðbundna leið á Þverfellshorn en kenndi sér meins og treysti sér ekki lengra. Þrír hópar björgunarmanna ásamt sjúkraflutningamönnum fóru á staðinn en viðkomandi var um hálfa leið upp á Þverfellshorn. Var hlúð að viðkomandi og hann borinn í börum niður á bílastæði en þangað var komið um hálfeitt leytið. Verður hann fluttur á sjúkrahús til nánari skoðunar.
Fyrir stuttu voru björgunarsveitir á Suðurlandi kallaðar út vegna vélsleðaslyss á Heklu. Samkvæmt fyrstu tilkynningu er viðkomandi staddur um 200 metra frá toppnum, veður ágætt og aðstæður því góðar af því leytinu. Þar sem mikill fjölda björgunartækja er á sameiginlegri æfingu björgunarsveita á Austurlandi voru snjóbílar úr Reykjavík einnig kallaðar út.
Uppfært:
Um klukkan eitt komu fyrstu björgunarmenn að slösuðum vélsleðamanni á Heklu. Þeir veittu honum fyrstu hjálp og hlúðu að honum. Hann var svo settur um borð í þyrlu LHG sem hélt af slysstað um 13:25 og er nú á leið með viðkomandi á spítala. Björgunarmenn eru enn á vettvangi að huga að samferðamönnum og vélsleða mannsins.