Kolbrún Bergþórsdóttir, blaðamaður á Fréttablaðinu, undrast viðburðinn Píkudaga sem Háskóli Íslands hélt í vikunni en stefnt er að því að þetta verði árlegur viðburður. Í leiðara Fréttablaðsins sem ber yfirskriftina Píkudýrkun kallar Kolbrún þetta uppátæki „akademísk skringilegheit“ og hefur efasemdir um að Píkudagar verði til þess að háskólinn nái því markmiði sínu að komast í hóp 100 bestu háskóla heims.
Kolbrún ræðir um dónakalla sem senda konur óbeðið myndir af kynfærum sínum og gerir hún lítinn greinarmun á slíkum uppátækjum og framtakinu Píkudagar:
„Ekki skal dregið úr þeirri staðreynd að karlmenn hafa stundum verið æði uppteknir af typpinu á sér.Sumir þeirra, dónakarlarnir alræmdu, hafa átt það til að senda kynningarmyndir af typpinu á sér til kvenna. Þeir lifa í þeim misskilningi að þannig geti þeir unnið sig í álit meðan staðreyndin er sú að karlmenn sem eru öllum stundum uppteknir af typpinu á sér þykja fremur hvimleið fyrirbæri. Í daglegu tali eru þeir oft kallaðir typpalingar.“
Kolbrún segir að eitthvað myndi nú heyrast ef háskólinn gengist fyrir typpadögum þar sem menn veltu sér upp úr sjálfsfróunarminningum:
„Það þykir hins vegar hið mesta framfaramál þegar konur efna til Píkudaga í Háskóla Íslands og ræða um heilsu píkunnar og segja sjálfsfróunarsögur. Þetta er í fyrsta sinn sem Píkudagar eru haldnir og af auglýsingum og fjölmiðlaumfjöllun mátti ráða að vonir stæðu til að þeir yrðu árlegur viðburður. Landsmenn hljóta að bíða spenntir eftir því hvað verður á boðstólum á næstu Píkudögum. Kannski píkusmakk?“
Kolbrún telur kvenréttindabaráttu vera komna á undarlegt stig þegar farið er á keppa við reðurdýrkun karla með píkudýrkun:
„Kvennabarátta er mikilvæg og merkileg og á að fara fram í háskólum landsins, en það er sannarlega ekki verið að gera henni hátt undir höfði með jafn skringilegu og innihaldslitlu fyrirbæri og Píkudögum.“