Jónas Sigurgeirsson, bókaútgefandi, sækir hart að Gunnari Smára Egilssyni, vegna afskipta hans af verkalýðsmálum. Gunnar Smári er oft talinn vera hugmyndafræðingur þeirra nýju strauma sem leikið hafa um verkalýðshreyfinguna undanfarið og birst í mun harðari framgöngu en þekkst hefur í langan tíma. Fólk á borð við Sólveigu Jónsdóttur, formann Eflingar, er talið hafa komist til valda að einhverju leyti í tengslum við baráttu og starf Gunnars Smára bak við tjöldin. Gunnar Smári er einnig einn af stofnendum Sósíalistaflokksins þar sem kveður við áþekkan tón og í hinni nýju verkalýðshreyfingu.
Stutt verkföll sem beitt hefur verið í kjarabaráttunni undanfarið hafa einkum beinst að ferðaþjónustunni. Núna í kjölfar falls WOW Air sem er að valda miklu atvinnuleysi í greininni þessa dagana skrifar Jónas um að hans mati vonda tímasetningu aðgerða sem beint er gegn þessari grein. Færsla hans á Facebook um málið er eftirfarandi:
„Ef ég væri verkalýðsleiðtogi myndi ég reka þann ráðgjafa sem lagði til að verkfallsaðgerðum yrði beitt á ferðamannageirann. Bara burt með viðkomandi. Vonandi halda starfsmenn í ferðamannaiðnaðinum óbreyttum launum næstu misserin, þ.e. þeir sem halda starfinu sínu. Man í fljótu bragði ekki eftir verri tímasetningu í nokkru máli. Nema ef til vill stofnun Nyhedsavisen í Danmörku, kaupum á ensku prentsmiðjunni Wyndeham eða kaupunum á Fréttatímanum af stofnendum blaðsins nú ekki fyrir svo mörgum misserum. Eflaust eru mörg önnur dæmi þarna úti en læt hér staðar numið að sinni.“
Jónas vísar þarna til verkefna sem Gunnar Smári hefur verið í forsvari fyrir og því augljóst hverjum þessi þykka sneið er ætluð. Gunnar Smári er líka ekki lengi að svara:
„Ef þú tækir hausinn úr rassgatinu myndirðu kannski muna eftir Kaupþing; neyðarláninu sem hvarf, Al Thani, Puffin-fléttunni eða hvað þið kölluðu allan þann þjófnað og fjárglæfri sem stundaðir voru innan þeirrar ormagryfju.“
Þess skal getið að Jónas Sigurgeirsson starfaðí í Kaupþingi fram að hruni og er Gunnar Smári með þessum orðum að sneiða að honum.
Jónas svarar:
„En ég er ekki verkalýðsleiðtogi og myndi aldrei vilja losna við þig. Þú ert á góðri leið með að stúta verkalýðshreyfingunni sem er eins og draugur úr fortíðinni. Nú blasir við að ekki verður hjá því komist að skoða vinnuréttarlöggjöfina. Ekki gengur að fámennur hópur sósíalista troði verkföllum upp á dugandi fólk og valdi stórfeldum skaða í þjóðfélaginu.“
Gunnar Smári segir menn drukkna og neitar frekari samræðum
Þessu svarar Gunnar Smári:
„Jónas, ekki fara á Facebook þegar þú ert byrjaður að drekka. Þú heldur ekki þræði.“
Fyrir þessi ummæli saka bæði Gunnar og fleiri þátttakendur í umræðunni Gunnar Smára um dónaskap en hann svarar:
„Ég skal ræða við ykkur um draumóra Jónasar og annarra öfga hægrimanna um að setja lög á verkalýðshreyfinguna til að takmarka verkfallsréttinn þegar runnið er af ykkur. Hef lært það af reynslunni að menn sem pósta svona nokkru, sem þeim þykir snjallt og kjarkað, á föstudags- og laugardagskvöldum eru ekki viðræðuhæfir. Farið að horfa á Gísla Marteinn eða eitthvað.“
Þess má geta að Gunnar Smári átti sjálfur við áfengisvandamál að stríða en er hættur að drekka fyrir mörgum árum.