Helgi Heiðar Steinarsson og Brynjar Smári Guðmundsson, sem handteknir voru fyrir kókaínsmygl í Ástralíu í nóvember síðastliðnum, hafa báðir játað sök í málinu. Verði þeir sakfelldir geta þeir átt lífstíðardóm yfir höfði sér.
Upplýsingafulltrúi héraðsdómstóls Victoriu-fylkis segir í skriflegu svari til DV að aðalmeðferð í málum tvímenningana muni hefjast þann 29. maí næstkomandi.
DV greindi frá handtöku tvímenninganna í lok seinasta árs og þá var töluvert fjallað um málið í áströlskum fjölmiðlum.
Þann 26. nóvember var Brynjar Smári stöðvaður á flugvellinum í Melbourne þar sem hann var að koma frá Hong Kong. Var hann tekinn afsíðis því tollvörðum þótti farangur hans grunsamlegur. Kom þá í ljós að rúmlega fjögur kíló af kókaíni voru falin í fóðri ferðatöskunnar. Það var fyrir samvinnu alríkislögreglunnar og tollgæslunnar að upp komst um smygltilraunina. Í kjölfarið var Helgi Heiðar handtekinn á hóteli í borginni eftir að 2,7 kíló af kókaíni fundust á hótelherbergi hans. Tvímenningarnir voru í kjölfarið úrskurðaðir í gæsluvarðhald.
Söluverðmæti efnanna sem tvímenningarnir voru gripnir með er talið vera rúmlega 215 milljónir íslenskra króna en talið er líklegt að fíkniefnin hafi átt að fara á markað í Ástralíu. Samkvæmt skýrslu Global Drug Survey, sem kom út á síðasta ári, er kókaínverð í Ástralíu það næsthæsta í heiminum. Ástæðan er meðal annars strangt tolleftirlit.
Mál mannanna tveggja eru aðskilin fyrir héraðsdómi í Melbourne en fyrirtaka fór fram í báðum málum þann 19. mars þar sem þeir játuðu báðir sök. Sem fyrr segir eiga þeir þungan dóm yfir höfði sér verði þeir sakfelldir. Hvorugur þeirra á sakaferil að baki hér á landi. Líkt og fram kom í frétt DV í nóvember njóta þeir og fjölskyldur þeirra aðstoðar utanríkisráðuneytisins vegna málsins.