Lögmenn furða sig á skipan Sveins Andra Sveinssonar sem annars skiptastjóra WOW air. Ágreiningsmál vegna starfa Sveins sem skiptastjóri EK1923 eru nú rekin fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur og varða óánægju kröfuhafa þrotabúsins vegna þóknana, tímagjalds og annarra aðgerða Sveins Andra sem skiptastjóra. Þetta sögðu Kristrún Elsa Harðardóttir og Saga Ýrr Jónsdóttir, lögmenn, í Morgunútvarpi Rásar 2 í morgun.
„Það kom strax upp að lögmenn í stéttinni voru ansi hissa á þessari skipan. Það er hins vegar enginn hissa á því að tveir miðaldra karlmenn séu skipaðir yfir svona stóru búi, það er bara það sem gengur og gerist á hverjum einasta degi í okkar bransa, því miður. Okkur konunum virðist minna treyst fyrir þessum stóru búum,“ sagði Kristrún Elsa í morgun en hún furðar sig á skipun Sveins Andra sem skiptastjóra vegna þess hversu umdeildur hann er þessar mundir sökum ágreiningsmála varðandi þrotabú EK1923 sem hann er skiptastjóri yfir.
Saga Ýrr tekur undir þetta og segir það mikið hagsmunamál innan lögmannastéttarinnar að hæfustu aðilarnir séu skipaðir sem skiptastjórar. „Þessi bú, þau gefa af sér gríðarlegar tekjur þannig að þetta er mikið hagsmunamál fyrir lögmenn að þeir hæfustu fái þetta.“ Saga segir að í meistararitgerð Jóns Ellerts Lárussonar í skattarétti og endurskoðun komi fram að þörf sé talin á að skiptastjórar kunni eitthvað fyrir sér í viðskiptafræði, þeir einu sem hafi verið ósammála því hafi verið skiptastjórar sjálfir. Af sextán þrotabúum sem ritgerðin skoðaði hafi aðeins tveir skiptastjórar verið konur, restin hafi verið miðaldra karlmenn.
Skiptastjórar WOW eru Sveinn Andri Sveinsson og Þorsteinn Einarsson, hæstaréttarlögmenn
„Tveir menn, á svipuðum aldri, með svipaða reynslu, að ég best veit ekki með viðbótaþekkingu eða annað, það er engin reynsla að mér skilst viðskiptafræðileg, hvorki á bókhaldi né fjármálum fyrirtækja né öðru eins og fjallað var um í þessari ritgerð að væri gagnrýnisverð.“
Saga Ýrr bendir á að engar reglur séu gildandi um hverja megi skipa sem skiptastjóra og því dómurum í sjálfsvald sett hverja þeir velja. „Sem hlýtur að koma svolítið á óvart og hlýtur að bjóða óheppilegum atvikum heim, ekki bara í þessu búi.“
Þær Kristrún og Saga eru sammála um að það halli á konur við skipan skiptastjóra yfir stórum þrotabúum og þegar þær leiti svara við því hvers vegna svo sé séu svörin að miðaldra karlmennirnir séu reynslumeiri.
„Hvernig eiga konurnar að fá reynsluna ef þær fá aldrei að skipta stórum búum?“
Þær eru jafnframt sammála um að ákvörðunin um að skipa Svein Andra sem annan skiptastjóra WOW sé sérstaklega undarleg í ljósi þess hvað hann er umdeildur þessa stundina, einmitt vegna starfshátta hans sem skiptastjóri. „Þetta bú er af þeirri stærðargráðu að það þarf að vera þannig að það sé einhver óumdeildur skiptastjóri yfir þessu búi.“ Þar fyrir utan er talið óheppilegt að Sveinn Andri sinni samhliða störfum sem skiptastjóri í tveimur stórum þrotabúum. Kröfuhafar hafa farið fram á að Sveinn víki sem skiptastjóri í öðru búinu, en kröfuhafarnir einir geta haft eftirlit með skiptastjórum þar sem ekkert annars konar eftirlit er haft með störfum þeirra. Sveinn Andri rukki líka meira heldur en gangi og gerist fyrir störf sem skiptastjóri, eða 40 þúsund á tímann og svo virðisaukaskatt ofan á það.
„Þeir lögmenn sem eru í kringum mig og svo ég tali fyrir sjálfa mig þá eru flestir að taka svona 25 þúsund plús virðisaukaskatt“