Landsréttur hefur fellt úr gildi gæsluvarðhaldsúrskurð yfir karlmanni sem er grunaður um að hafa skotið úr byssu í Vogahverfi þann 9. mars síðastliðinn. Það þýðir að maðurinn mun ganga laus. Landsréttur taldi rannsóknargögn ekki sýna nægilega vel að maðurinn sé grunaður um að hafa framið afbrot sem að lögum getur varðað 10 ára fangelsi. Þetta er ekki skýrt nánar í dómi.
Maðurinn játaði þó fúslega að hann hafi skotið af byssunni, sem er að gerðinni Ruger, en bar fyrir sig að hann hafi ætlað sér að fæla frá tvo menn sem hann átti í útistöðum við. Hann sagðist hafa miðað að vegg neðan við húsið og neitaði alfarið að hafa miðað vopninu að umræddum mönnum.
Lögregla telur þó upplýst að maðurinn hafi skotið út um glugga í umrætt sinn og að rannsóknargögn bendi til þess að hann hafi skotið að mönnunum. Í greinagerð lögreglustjóra er atvikinu lýst svo: „Í tilkynningu kom fram að tveir aðilar hafi kallað á X um að koma í „byssuleik“ en ekki væri ljóst hve margir aðilar væru á vettvangi. Lögregla hafi vopnast og haldið á vettvang. Á leið þangað hafi lögregla haft afskipti af tveimur aðilum, A, kt. […] og B, kt. […] sem kváðu kærða hafa skotið á þá utan við […].“
Við rannsókn á vettvangi fann lögregla fyrrnefnda byssu, sem var falin ofan á plötu í stigahúsi, auk patróna úr skothylkjum. „Virtist hafa verið skotið með skotvopni úr íbúðinni og að bifreiðum framan við húsið. Greina hafi mátt göt eða ákomur eins og eftir byssukúlur á bifreiðinni […] og […] sem þarna voru. Ofanvert við bifreiðina […] hafi mátt sjá bjórflösku og jafnframt hafi yfirhöfn legið á jörðinni líkt og farið hafi verið úr henni skyndilega,“ segir í dómi.