Fréttablaðið skýrir frá þessu. Aðdragandi slyssins var að bolti rúllaði eftir veginum. Ökumaður sá boltann, stoppaði og kveikti á viðvörunarljósum bifreiðarinnar og hugðist fjarlægja boltann. Næsta bifreið fyrir aftan var einnig stöðvuðu en ökumaður þriðju bifreiðarinnar, Bandaríkjamaðurinn, gætti ekki að sér og ók aftan á bifreiðina fyrir framan sig.
Ökumaður fremsta bílsins hlaut lífshættulega áverka, þar á meðal höfuðkúpubrot, blæðingu í heila, rifbeinsbrot og innvortis blæðingar. Þá breyttist persónuleiki hans og sjónsvið vinstra auga.
Lögreglan fór fram á farbann yfir Bandaríkjamanninum og féllst héraðsdómur á það en Landsréttur felldi þann úrskurð í gildi og sagði að lögreglan hefði upplýsingar um símanúmer, netfang og vinnustað mannsins í Bandaríkjunum. Engin gögn bentu til að hann myndi reyna að komast undan réttvísinni.
Ákæran á hendur honum var nýlega birt í Lögbirtingablaðinu en það bendir til að illa hafi gengið að hafa uppi á manninum til að birta honum ákæruna.
Ökumenn beggja hinna bifreiðanna og farþegar í annarri þeirra krefjast samtals um 15 milljóna í bætur frá Bandaríkjamanninum. Þá er gerð refsikrafa í málinu en allt að fjögurra ára fangelsi liggur við brotum mannsins ef hann verður sakfelldur.