315 manns munu missa vinnuna hjá Airport Associates eftir fall WOW air í gær. Þetta kemur fram á Vísi en þar segir Sigþór Kristinn Skúlason, forstjóri fyrirtækisins, að um helmingur af starfsemi flugafgreiðsluþjónustu fyrirtækisins hafi snúið að verkefnum tengdum WOW air.
„Þetta kallar á miklar breytingar. Við gerum ráð fyrir því að endurráða marga af þessum 315 aftur. En, þetta er hugsað til að milda höggið. Við þurfum að endurskipuleggja allt vaktafyrirkomulag. Nú er til dæmis ekkert að gera á þeim tíma sólarhringsins þar sem í nógu var að snúast. Við munum bjóða þessum starfsmönnum vinnu aftur en þá hugsanlega miðað við minna starfshlutfall,“ segir Sigþór við Vísi.
Þá greinir mbl.is frá því að 59 manns muni missa vinnuna hjá rútufyrirtækinu Kynnisferðum. Unnið er að því að greina fólkinu frá starfsmissinum en um er að ræða 13 til 14 prósent starfsfólks.
„Það er mikil óvissa í gangi hjá starfsfólkinu. Við erum að reyna að leggja áherslu á að klára þetta sem fyrst til að eyða óvissunni svo við getum sent starfsfólki tölvupóst um að aðgerðunum sé lokið,” hefur mbl.is eftir Birni Ragnarssyni, framkvæmdastjóra Kynnisferða.
Árshátíð fyrirtækisins sem átti að fara fram á morgun hefur verið frestað af þessum sökum. Í frétt Mbl.is kemur fram að það séu helst tveir þættir sem orsaki þessar uppsagnir; annars vegar fall WOW air sem var stór viðskiptavinur Kynnisferða og hins vegar áhafnaakstur Icelandair sem fyrirtækið sér ekki lengur um. Farþegar sem keyptu flug með WOW air gátu keypt rútuferðir þegar þeir bókuðu flug. Fall WOW hefur því mikil áhrif á Kynnisferðir.