Sóley Tómasdóttir, fyrrverandi oddviti VG í borgarstjórn, segist enga samúð hafa með Skúla Mogensen og virðist segja að það sé karlmennsku að kenna að WOW Air hafi farið í þrot. Hún tjáir sig um málið á bæði Twitter og Facebook.
„Ég hef hvorki samúð né húmor fyrir körlum með ofvaxin egó og ótakmarkaða möguleika á að ógna stöðugleika og velferð okkar hinna. #karlmennskan #wow,“ segir Sóley sem tekur síðan fram: „En það skal tekið fram að hugur minn er sannarlega hjá starfsfólki, fjölskyldum þeirra og strandaglópum víðsvegar um heiminn.“
Á Facebook skýrir hún mál sitt nánar og segist ekki skilja fólk sem ver WOW Air. „Ég sé hér að fólk er mjög spælt yfir að hafa misst samkeppni á íslenskum flugmarkaði, saknar WOW og er brjálað út í Icelandair. Ég er ætla ekki að hafa skoðun á Icelandair eða okri á þeim bæ, en skil ekki að fólk skuli verja flugrekstur og fargjöld sem eru engan veginn sjálfbær,“ segir Sóley.
Hún spyr svo hvort það sé ekki kominn tími á ábyrgari rekstur. „Viljum við í alvöru ennþá byggja samfélagið á loftbólum sem koma og fara, bjóða lág verð á meðan þau lifa en valda svo ómældum skaða eftir það? -Er ekki kominn tími til að við krefjumst ábyrgs reksturs og raunverulega sanngjarns verðs hjá fyrirtækjum sem ógna ekki efnahagslegum stöðugleika þúsunda fjölskyldna og landsins alls með reglulegu millibili?“