Tvær rússneskar herflugvélar flugu í gærkvöldi inn í loftrýmiseftirlitsvæði við Ísland, en þó utan við íslenska lofthelgi.
Samkvæmt fréttatilkynningu frá Landhelgisgæslunni höfðu vélarnar hvorki tilkynnt sig til flugumferðarstjórnar né voru þær með ratsjárvara í gangi.
Í samræmi við vinnureglur Atlandshafsbandalagsins flugu tvær orrustuþotur ítalska flughersins sem eru hér á landi til móts við vélarnar til að auðkenna þær. Vélarnar reyndust vera rússneskar sprengjuflugvélar af gerðinni Tupolev Tu-142. Sambærilegt atvik átti sér stað fyrr í þessum mánuði þar sem ítölsku herþoturnar þurftu að fljúga móti rússneskum sprengjuflugvélum.
Flugsveit ítalska flughersins kom nýverið til Íslands sem liður í verkefni sem heyrir undir svæðisstjórnstöð NATO. Landhelgisgæsla Íslands ber ábyrgð á framkvæmdinni hér á landi í samvinnu við ISAVIA. Á Íslandi eru nú fjórar Eurofighter Typhoon EF-2000 orrustuþotur.