Georg Holm, Kjartan Sveinsson, Orri Páll Dýrason og Jón Þór Birgisson, liðsmenn hljómsveitarinnar Sigur Rós, hafa verið ákærðir fyrir skattsvik. Þeir hafa verið ákærðir fyrir að telja ekki fram tekjur eða arðgreiðslur.
RÚV greinir frá þessu. Þar segir að allir meðlimir hljómsveitarinnar utan Kjartans Sveinssonar eru ákærðir fyrir meiriháttar skattalagabrot með því að hafa staðið skil á efnislega röngum skattaframtölum gjaldárin 2011 til og með 2014.
Í ákærunni á hendur Jóni Þór Birgissyni, söngvara sveitarinnar, er honum gefið að sök að hafa komið sér undan greiðslu tekjuskatts upp á rúmar 30 milljónir króna og fjármagnstekjuskatt upp á 13 milljónir. Georg Holm, bassaleikari sveitarinnar, er ákærður fyrir að hafa komist hjá greiðslu tekjuskatts upp á 35 milljónir og fjármagnstekjuskatts upp á 9,5 milljónir.
Orri Páll Dýrason er ákærður fyrir að hafa komist hjá greiðslu tekjuskatts upp á 36 milljónir og fjármagnstekjuskatt upp á 9,5 milljónir.