Íslenska flugmannafélagið, stéttarfélag flugmanna WOW-air hefur óskað eftir því við Blaðamannafélag Íslands að kannað verði hvort blaðamenn sem fjallað hafa um WOW-air hafi hagsmuna að gæta.
„Í ljósi óvæginna umfjöllunar íslenskra fréttamiðla um WOW air undanfarið óskar íslenska flugmannafélagið ÍFF, stéttarfélag flugmanna WOW air, eftir rannsókn á hlunnindum og sporslum til blaðamanna svo sem frímiðahlunnindum frá helsta samkeppnisaðila WOW air. Við óskum eftir að þetta verði kannað með tilliti gagnsæis blaðamanna gagnvart lesendum sínum.“
Einnig óskar ÍFF eftir því að heimildaöflun íslenskra blaðamanna um málefni WOW verði könnuð. Ástæðan er sögð sú að margir „reiði sig m.a. á upplýsingar frá bloggara, búsettum í Svíþjóð“.
Umræddur bloggari er ekki nefndur á nafn í tilkynningunni, en ætla má að átt sé við Kristján Sigurjónsson hjá Túrista.is. Á vefnum eru fluttar fréttir og birtar greinar sem tengjast ferðlögum Íslendinga út í heim og íslenskri ferðaþjónustu. Í tilkynningu ÍFF er bloggarinn, það er Kristján, sagður „sjálfskipaður helsti sérfræðingur Íslands í flugmálum“ og þá sé oftar en ekki vitnað í „órökstuddar hugleiðingar“ hans.