Verkföll hótelstarfsmanna og rútubúlstjóra hefjast á miðnætti í nótt og standa til miðnættis á föstudagskvöld. Í tilkynningu frá Eflingu kemur fram að Efling álítur allan akstur hópferðabíla á félagssvæði Eflingar, af hálfu annarra en eigenda og æðstu stjórnenda, vera verkfallsbrot. Starfsfólk ætlar að vera með kröfustöður við hótelin. Í tilkynningunni segir:
Starfsfólk hótela ætlar að sýna samstöðu með því að koma saman í kröfustöður við hótelin. Fjórar kröfustöður verða hvorn dag kl. 8.00-15.00. Gengið verður á milli nærliggjandi hótela frá tveimur stöðum, Austurvelli og Hlemmi.
Efling lítur svo á að verkfallið nái til allra sem vinna störf samkvæmt kjarasamningum Eflingar og VR, einnig ef einstaklingur er skráður í rangt stéttarfélag. Einu undantekningarnar eru hóteleigendur og æðstu stjórnendur.
Rútubílstjórar koma saman á skrifstofu Eflingar og skipta sér á vaktir til að verja verkfallið. Aðgerðir hefjast á miðnætti.
Efling álítur allan akstur hópferðabifreiða á félagssvæði Eflingar, af hálfu annarra en eigenda og æðstu stjórnenda, vera verkfallsbrot.