Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, gagnrýnir Helga Vífil Júlíusson, blaðamann Markaðarins, harðlega og líkir honum við repúblikanann Mitt Romney.
Tilefni þessarar gagnrýni Sólveigar er pistill sem Helgi Vífill skrifar í Markaðinn í dag. Þar skrifar Helgi um hverfulleika viðskipta og sendir meðal annars pillu á Stundina fyrir fréttaskýringu um arðgreiðslur hótela. Segir Helgi að uppsláttur blaðsins beri þess merki að blaðið skeyti lítt um gangverk efnahagslífsins.
Helgi bendir einnig á nokkur dæmi um fyrirtæki sem hafa notið velgengni áður en illa fer; WOW er eitt dæmi og leikfangarisinn Toys‘R‘Us er annað. Þá hafi álver um allan heim verið rekin með tapi vegna óhagstæðrar þróunar á mörkuðum.
En það eru eftirfarandi ummæli sem fara fyrir brjóstið á Sólveigu Önnu. „Eins og launafólk á fjármagn rétt á umbun sem fer eftir áhættunni sem er tekin hverju sinni.“
Sólveig Anna rifjar upp ummæli sem Mitt Romney lét eitt sinn falla um fyrirtæki: „Corporations are people, my friend.“ Ummæli Romney vöktu talsverða athygli á sínum tíma og segir Sólveig að hann hafi uppskorið „innilegt alþýðufliss.“
Sólveig skrifar á Facebook að Helgi hljóti að hafa verið ánægður með sig þegar honum duttu þessi „snjöllu orð“ í hug. Gagnrýni hennar má sjá hér að neðan.
„Nú höfum við eignast okkar eigin Romney en Helgi Vífill Júlíusson segir í Fréttablaðinu í dag: „Eins og launafólk á fjármagn rétt á umbun sem fer eftir áhættunni sem er tekin hverju sinni.“
Mikið hefur hann Helgi verið ánægður með sig þegar honum duttu þessi snjöllu orð í hug. Og mikið ætla ég að hugsa um þetta oft í dag: Hótelþernan á rétt á umbun rétt eins og fjármagnið, heppin hún. En fjármagnið á samt meiri rétt á umbun þannig að ef hótelþernan fær 340.000 krónur í umbun og þarf svo að borga gjöld og svo leiguna og svo kaupa mat og umbunin klárast alltaf áður en næsti skammtur af umbun kemur þá er ekki hægt að ræða það neitt. Afþví að fjármagnið hefur verið ekki minna duglegt en hún, og lifir undir miklu álagi vegna allrar áhættunnar og ætlar einhver hótelþerna að vera svo gráðug að svína á aumingja fjármagninu, bara afþví að hún getur ekki passað uppá að láta krónurnar sínar duga?
Gjöriði svo vel, njótið lestursins, ekki oft sem svona greiningarfærni á samfélagi kemst á prent.“