Samkvæmt áreiðanlegum heimildum DV er fjárhagsleg endurskipulagning WOW air komin mun lengra en rætt hefur verið um í fjölmiðlum.
Það er ekki nóg með að meirihluti skuldabréfaeigenda og annarra kröfuhafa hafi samþykkt að breyta skuldum sínum í hlutafé, heldur er tilraun til að fá inn um 5 milljarða króna í nýtt hlutafé á lokametrunum.
Samkvæmt heimildum DV mun Indigo að öllum líkindum leggja til bróðurpartinn af þessum fjármunum og verður því væntanlega stærsti hluthafi WOW.
Talið var að það yrði erfitt fyrir WOW að ná inn þessum 5 milljörðum króna og er ekki langt síðan að félagið lenti í vandræðum með að fjármagna sig um nokkra milljarða í skuldabréfaútboði. Síðan þá hafa skuldir félagsins lækkað gríðarlega og er það orðið mun fýsilegri fjárfestingakostur en áður. Áhugi Indigo hefur því vaknað að nýju og vakti athygli að Skúli Mogensen talaði hlýlega til þeirra í fréttum í gær.
Nái Skúli að ljúka þessu hlýtur það að teljast eitt af kraftaverkum íslenskrar viðskiptasögu. Staða WOW var svo slæm í fyrradag að margir voru í raun búnir að afskrifa félagið. Annað er uppi á teningnum, samkvæmt heimildum DV.