Samkvæmt heimildum DV mun ISAVIA ekki taka þátt í að breyta skuldum WOW í hlutafé. Flugfélagið skuldar ISAVIA tæpa tvo milljarða króna vegna lendingargjalda. Lengt hefur verið í lánum WOW og greiðsluáætlun gerð, en lengra mun ríkisfyrirtækið ekki ganga.
Fulltrúum WOW hefur verið gerð grein fyrir þessari afstöðu og hafa þeir ekki óskað formlega eftir að ISAVIA taki þátt í þeim skuldbreytingaviðræðum sem nú standa yfir.
Að sögn heimildamanna DV væri ISAVIA sett í mjög undarlega stöðu ef það samþykkti að breyta skuldum í hlutafé. Þá væri félagið skyndilega orðið hluthafi í einum stærsta viðskiptavini sínum á Keflavíkurflugvelli, sem ekki gengi upp gagnvart öðrum flugfélögum sem fljúga til Íslands. Þar með væri ríkið líka, í gegnum ISAVIA orðið hluthafi í WOW, sem ekki komi til greina.
Að sögn heimildamanna gæti komið til greina að ISAVIA breytti greiðsluáætlun WOW, en naumast væri hægt að ganga lengra til að koma til móts við félagið, þrátt fyrir að það sé einn mikilvægasti viðskiptavinur ISAVIA á vellinum.