Lögreglan á Vestfjörðum stöðvaði för ökumanns í Staðardal í Strandasýslu um miðjan dag í gær. Bifreið ökumannsins mældist á 130 kílómetra hraða en hámarkshraði á þessum slóðum er 90 kílómetrar á klukkustund.
„Við afskipti lögreglunnar af ökumanninum, vegna hraðakstursbrotsins, vaknaði grunur um að hann væri undir áhrifum fíkniefna,“ segir í skeyti lögreglu en við leit í bifreiðinni fundust um 60 grömm af ætluðum kannabisefnum, það er að segja marijúana.
„Ökumanninum var sleppt lausum þegar viðeigandi sýnatöku og yfirheyrslu var lokið. Bifreið hans var að sjálfsögðu kyrrsett enda taldist hann ekki í ástandi til að aka.“
Lögregla endar skeytið á þessum orðum:
„Það er eitt af hlutverkum lögreglunnar að taka úr umferð þá ökumenn sem gætu verið hættulegir sjálfum sér og öðrum, allt í þágu umferðaröryggis.“