„Svo opna ég fram á ganginn og kveiki ljósið. Hann var svo skrítinn maðurinn, mér datt fyrst í hug að hann væri drukkinn, hvað var í gangi? Af því hann var svo allt öðruvísi heldur en kvöldið áður. […] Svo sest hann inn í eldhús og horfir stund á mig og segir: Ég er að koma til að segja þér að hann Hafliði er dáinn. Og ég bara: Bíddu er hann ekki inni á geðdeildinni, hvernig gat hann gert þetta þar ? Þá segir hann við mig : Hann hengdi sig. Það kom enginn prestur með honum, hann var bara einn á ferð rannsóknarlögreglumaðurinn, enginn frá spítalanum eða neitt. Enda er þetta áfall fyrir spítalann en ekki fjölskylduna. Okkar upplifun er sú.“
„Það má segja að þarna hafi alls staðar mátt gera betur. Bæði varðandi húsnæðið, varðandi verkferlanna og varðandi þjálfun starfsfólks.“
Eftir að Hafliði lést var ákveðið að leggja mat á öryggi geðdeildanna. Niðurstaða matsins gaf ekki góða mynd af ástandinu. Aðeins þrjár af átta geðdeildum stóðust prófið, hinar fimm féllu. Samkvæmt Eyrúnu Thorstensen, verkefnastjóra á geðsviði sem sá um matið, þýðir falleinkunn að umhverfið á deildinni sé hættulegt. Hún segir einnig að þótt ferlar hafi í dag verið bættir og starfsmenn hafi aukið eftirlit með einstaklingum sem teljast vera í sjálfsvígshættu, þá hefur samt sem áður lítið verið gert til að gera húsnæðið öruggara enda ekkert fjármagn til staðar fyrir slíkar aðgerðir.
„Það sem stendur fyrst og fremst í vegi fyrir því eru peningar. Ég myndi halda, þótt ég viti kannski ekki alveg hvað það kostar að taka eina deild í gegn, að þá hugsa ég að það hlaupi á svona 100-150 milljónum kannski, til að hlutirnir geti verið í lagi.“
Anna Gunnhildur Ólafsdóttir, framkvæmdarstjóri Geðhjálpar, segir neyðarástand ríkja í geðheilbrigðismálum ungmenna á aldrinum 16-25 ára á Íslandi og grípa þurfi til neyðaraðgerða án tafar.
„Mér fyndist til dæmis að það væri hægt að bjóða þessum hópi upp á tíu tíma fría í sálfræðiþjónustu. Þetta hljótum við að geta gert sem samfélag og það hefur sýnt sig til dæmis í Bretlandi að þetta skilar gífurlegum árangri fyrir viðkomandi, fyrir fjölskylduna og fyrir samfélagið bara fjárhagslega. Þetta hefur verið reiknað út. Það er neyðarástand. Ungu fólki á Íslandi hefur aldrei liðið eins illa og akkúrat núna“