Björgvin Þór Kristjánsson, margdæmdur ofbeldismaður, hefur verið dæmdur í tólf mánaða fangelsi vegna hrottalegrar árásar á lögreglumann. Samkvæmt dómi var hann handtekinn í janúar í fyrra af ónefndum ástæðum. Þegar búið var að koma honum fyrir í fangaklefa var hann beðinn um að fara úr skónum. Við það trylltist Björgvin og harðneitaði að fara úr skónum.
Samkvæmt dómi reis hann skyndilega á fætur og gerði sig líklegan til að ráðast á lögreglumann. Þá var hann tekinn, lagður á bekk í klefanum og færður úr skónum. Á meðan hótaði hann lögreglumanni og sagði: „Ég stúta þér síðar“.
Þegar hann var kominn úr skónum hugðust lögreglumenn yfirgefa klefann. „Hafi lögreglumennirnir þá gengið út úr klefanum og þegar B hafi verið að loka hurðinni hafi ákærði ýtt í hana með fætinum og hafi brotaþoli reynt að ýta fæti hans inn fyrir og lögreglumenn hafi ýtt á hurðina. Hafi ákærði þá kýlt brotaþola í andlitið og hafi eftir það verið hægt að loka hurðinni og læsa,“ segir í dómi.
Það blæddi úr nösum lögreglumannsins og þegar annar lögreglumaður opnaði litla lúgu á hurðinni reyndi Björgvin að kýla viðkomandi í gegnum lúguna, þó án árangurs. Lögreglumaðurinn hlaut nokkurn skaða af höggi Björgvins. „Hann kvað lækni hafa skoðað sig og hafi hann tjáð sér að hann væri bólginn á hægri vanga og að tennur væru brotnar. Þá hafi brotaþoli farið til tannlæknis á mánudeginum og hafi honum verið tjáð að brot væru í fjórum tönnum,“ segir í dómi.
Björgvin á að baki langan sakaferil en frá árinu 2000 hefur hann hlotið 19 refsidóma fyrir ýmis afbrot. Mesta athygli vakti þegar hann skallaði lögreglumann árið 2009 fyrir utan Héraðsdóm Reykjavíkur.