Sverrir Agnarsson, fyrrverandi formaður Félags múslíma á Íslandi, segir á Facebook-síðu sinni að lögregla hafi kýlt son hans í gær við Austurvöll þrátt fyrir að hann hafi ekki verið þar til að mótmæla. Hælisleitendur á Íslandi og stuðningsmenn þeirra efndu til mótmæla á Austurvelli í gær en átök brutust út á milli mótmælenda og lögreglunnar.
Sverrir segir að sonur hans hafi ekki verið á Austurvelli til að mótmæla. „Andstæðingur lögreglunnar á myndinni var sonur minn Ómar – EKKI að mótmæla, EKKI að tjalda og EKKI með pappa heldur myndavél,“ segir Sverrir og birtir mynd sem sjá má hér fyrir neðan.
Hann segir að óháð afstöðu fólks til mótmælanna sjálfra þá eigi þetta ekki að líðast. „Hann fékk hnefahögg í brjóstkassann og piparúða í andlitið. Það þarf ekki að taka afstöðu til mótmælanna til að draga í efa að svona óstöðugir gæjar séu í rétta jobbinu,“ segir Sverrir.
Lögreglan hefur verið gagnrýnd af sumum fyrir óvenjuhörð viðbrögð við mótmælunum. Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, sagði til að mynda ekki minnast þess að tiltölulega fámennum mótmælum hafi áður verið mætt með slíkum aðgerðum.
https://www.facebook.com/sverrir.agnarsson/posts/10217877200229297