Á þriðja tug hælisleitenda hefur nú safnast saman fyrir utan lögreglustöðina á Hlemmi. Þar eru barðar bumbur og kölluð slagorð. Mikil reiði er í hælisleitendum eftir að átök brutust út á milli lögreglu og mótmælenda á Austurvelli í dag eftir að mótmælendur gerðu tilraun til að reisa tjald á Austurvelli. Til handalögmála kom og lögregla er sögð hafa beitt piparúða. Hælisleitendurnir berjast gegn brottvísunum frá landinu, vilja atvinnuleyfi og betri heilbrigðisþjónustu.
Uppfært:
kl. 21 DV er í sambandi við aðila sem staddur er á mótmælunum fyrir utan lögreglustöðina. Mótmælendur eru nú um 40. Sumir hafa fengið teppið til að hlýja sér í norðangarranum. Mikil reiði er í fólki eftir átökin við lögreglu í dag. Tveir mótmælendur, karl og kona, voru handtekin á Austurvelli í dag eftir að lögreglu og mótmælendum lenti saman. Þau sitja enn í fangageymslu. Mótmælendur ætla að standa fyrir utan lögreglustöðina þar til þeim hefur verið sleppt.
Uppfært kl. 21:20
Lögregla hefur fjarlægt einn mótmælandann af vettvangi. Óljóst er hvort hann verður handtekinn. Sjá myndir hér að neðan:
Myndbandið hér að neðan var tekið fyrir utan lögreglustöðina í kvöld.
Uppfært kl. 21:30 – nýtt myndband
Mótmælendur láta engan bilbug á sér finna og krefjast þess að félagar þeirra tveir verði leystir úr haldi. Náð voru í teppim hitapoka og hnetupoka handa mótmælendunum til að auðvelda þeim stöðuna. Að sögn sjónarvotts er heldur að fjölga í hópnum. Hér að neðan er nýtt myndband frá vettvangi:
Uppfært kl. 21:40
Búið er að sleppa öðrum mótmælandanum sem lögreglan handtók í dag úr haldi, það er kona. Karlmaður sem líka var handtekinn í dag er enn í haldi lögreglu. Mótmælendur ætla að halda áfram stöðunni fyrir utan lögreglustöðina þar til manninum hefur verið sleppt lausum. Mikil reiði greip um sig í hópnum þegar maður veittist að einum mótmælanda án þess að lögreglumenn á vettvangi aðhefðust nokkuð.
Uppfært kl. 21: 55
Nýtt myndband af vettvangi – mótmælandi fer yfir stöðuna:
Uppfært kl. 22:10
Rólegt er fyrir utan lögreglustöðina núna en mótmælendur halda þar til ennþá. Öðrum mótmælendanna sem handteknir voru í dag hefur verið sleppt, en það var íslensk kona. Erlendur karlmaður er hins vegar enn í haldi lögreglu og ætlar fólkið að halda kyrru fyrir á vettvangi þar til honum hefur verið sleppt. Um 40-50 manns taka þátt í mótmælunum núna. Ljósmyndari DV fór á vettvang og tók myndir:
Uppfært kl. 22:20
Rólegt er yfir mótmælastöðunni núna. Aðeins tveir lögreglumenn standa vörð núna fyrir utan lögreglustöðina en þeir voru fjölmargir fyrr í kvöld. Mótmælendur eru enn 40-50 á staðnum en rólegt er yfir mannskapnum.
Myndband:
Þetta myndband var tekið fyrir um klukkutíma, þá var enn fjöldi lögreglumanna fyrir utan og mótmælendur hétu því að fara ekki af svæðinu fyrr en manninum sem handtekinn var á mótmælunum á Austurvelli hefur verið sleppt úr haldi:
Mótmælunum fyrir utan lögreglustöðina er lokið þar sem búið er að láta lausan úr haldi mann sem lögreglan handtók á mótmælunum á Austurvelli í dag. Fyrr í kvöld var konan látin laus úr haldi lögreglunnar, hún er íslensk en karlmaðurinn er erlendur hælisleitandi.
Mótmælendur halda á Austurvöll þar sem þeir hyggjast láta fyrirberast í nótt. Er ætlunin að reisa tjöld þar. Óstaðfestar fregnir herma að leyfi hafi fengist frá borginni fyrir tjaldbúðum en lögregla stöðvaði uppsetningu tjalds á Austurvelli í dag. Óstaðfestar fregnir herma einnig að lögreglan elti mótmælendur niður á Austurvöll í tveimur bílum.
Þreyta var komin í mannskapinn og var ákveðið að aflýsa aðgerðum á Austuvelli í nótt. „Ennþá mikill hiti i fólki og ég býst við einhverju meira á morgun,“ sagði þátttakandi í mótmælunum við DV.