„Það hefur komið svo oft upp undanfarin ár hvað almenningur er í rauninni andsnúinn Ísrael,“ segir Íris Hanna Bigi-Leví en hún er hálf íslensk, hálf ísraelsk og búsett í Jerúsalem. Hún telur framlag Íslands til Eurovision, lagið Hatrið mun sigra með hljómsveitinni Hatari, vera enn eina leiðina fyrir Íslendinga að sýna í verki andúð á gyðingum og andúð á Ísrael en önnur nýleg dæmi séu til dæmis tillaga Reykjavíkurborgar um sniðgöngu á vörum frá Ísrael og umskurðarfrumvarpið.
Þetta kom fram í Bítinu á Bylgjunni í morgun þar sem Íris Hanna ræddi um álit Ísraela á Íslandi.
Ísland og Ísrael hafa verið áberandi í umræðunni undanfarnar vikur eftir að Íslendingar kusu hljómsveitina Hatara sem framlag sitt til Eurovisionkeppninnar í ár sem haldin verður í Tel Aviv í Ísrael. Hatari hafa þegar vakið neikvæð viðbrögð Ísraelsmanna og kallað hefur verið eftir því að þeim verði meinað að taka þátt út af pólitískum áróðri.
Sjáðu Hatara í ísraelska sjónvarpinu:„Ísland er sammála okkur um að gagnrýna Ísrael“
Íris segir íslenskan almenning illa upplýstan um ástandið þarna úti. Fréttaflutningur á Íslandi sé villandi og segi bara aðra hliðina. Deilur Ísraelsmanna og Palestínumanna hafa verið í deiglunni oft á síðustu árum og sitt sýnist hverjum um framgang ríkjanna.
„Það er náttúrulega eins og þú segir í flestum Vesturlöndum en mér finnst það koma mjög vel fram á Íslandi hvað fréttamenn eru í rauninni á móti Ísrael.“
„Mér finnst þetta mjög sorglegt. Það sem er líka og það sem mínum vinum, kunningjum og ættingjum út af því að okkur þykir svo vænt um ísland, en það er ekki gagnkvæmt.“
Það má jafnvel, samkvæmt Írisi, segja að Íslendingar séu álitnir gyðingahatarar og Íris hefur skammast sín fyrir að vera Íslendingur.
„Ég hef skammast mín frekar oft síðustu ár.“
„Þetta er bara að segja að við viljum enga gyðinga hingað.“
„Ég veit að sumir hafa hætt við [að ferðast til Íslands] því þeir vilja ekki fara á svona stað þar sem þeim finnst allir vera andsnúnir okkar ríki og okkar þjóð.“
En hvað finnst Írisi um lagið Hatrið mun sigra ?
„Þetta eru ágætir listamenn en þetta er ekki fyrir minn smekk,“ segðir hún, en henni finnst lagið vera óttalegur hávaði. Lagið fjalli um hatur sem sigrar, hljómsveitin kallar sig Hatara og Írisi finnst ekki mikla von að finna í laginu.
Íris biðlar til almennings að muna að ekkert deilumál er einhliða.
„Takið með í reikninginn að það eru alltaf tvær hliðar, að minnsta kosti, á öllum hlutum. Það þarf tvo til að rífast.“