Núverandi og væntanlegum eigendum nýrra fasteigna á svonefndum RÚV-reit í Efstaleiti er ætlað tæplega eitt stæði á hverja íbúð. Jafnframt hvílir sú kvöð á lóðum að bílastæði á yfirborði verði samnýtt af öllum eigendum, gestum og starfsmönnum á öllu svæðinu, þar með taldir eru starfsmenn RÚV.
Undanskilin þessari samnýtingu verða bílastæði sem staðsett verða í bílastæðakjallara eða bílastæðahúsi en þó munu þess konar stæði ekki fylgja öllum eignum.
Dæmi má taka um A-hluta svæðisins þar sem íbúðir eru 160 talsins en aðeins 138 stæði í bílastæðahúsi. Íbúum mun gefast kostur á að kaupa sér bílastæði í bílastæðahúsi en framboð á þeim verður þó takmarkað.
Þetta nýja hverfi er skilgreint sem samgöngumiðað miðborgarhverfi og er gert ráð fyrir því að skortur á bílastæðum muni leiða til þess að íbúar svæðisins nýti sér aðra ferðamáta á borð við almenningssamgöngur og hjól.
Í greinargerð með deiliskipulagi kemur fram:
„Fjöldi bílastæða hefur áhrif á umferðarsköpun uppbyggingarinnar en fjölda bílastæða er í skipulagstillögunni stillt í hóf. Reiturinn liggur vel við almenningssamgöngum sem ganga á Háaleitisbraut, Listabraut og Bústaðavegi og eru tengingar við stígakerfi borgarinnar nokkuð góðar en allt þetta stuðlar að aukinni notkun annarra ferðamáta en einkabílsins.“
Gert er ráð fyrir að íbúum standi til boða svokallað deilibíla fyrirkomulag. Deilibílar verða eins konar bílaleigubílar sem íbúar geti pantað sér til afnota í skamman tíma.
Húseigendur í hverfinu voru ósáttir við fyrirhugaða þéttingu byggðar við RÚV-reit og húsfélög á svæðinu kærðu ákvörðun Reykjavíkurborgar um breytt deiliskipulag. Í úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, þar sem kröfu húsfélaganna var hafnað, segir um bílastæðin:
„Til að draga úr umferð einkabíla af völdum fyrirhugaðrar byggðar og auka líkur á notkun annars ferðamáta sé skynsamlegt og rétt að takmarka framboð á bílastæðum.“
En húsfélögin höfðu gert alvarlega athugasemd við umferðarútreikninga sem geri ráð fyrir breyttum ferðavenjum þar sem engin vissa væri fyrri hendi um að slíkt muni ganga eftir. Þvert á móti töldu húsfélögin að umferð á svæðinu muni aukast.
Í áfangaskýrslu um skipulag á höfuðborgarsvæðinu frá 2010 kemur fram:
„Framboð gjaldfrjálsra bílastæða Fjölmargar rannsóknir sýna að aðgengi og framboð að bílastæðum við áfangastaði, verslanir og vinnustaði, hefur áhrif á val ferðamáta. Gott aðgengi að bílastæðum hvetur til notkunar einkabíls, einkum ef þau eru gjaldfrjáls, en gjaldtaka á bílastæðum dregur úr áhuga.“
Í sömu skýrslu er tekið fram að illa hafi gengið að fylgja eftir stefnu Reykjavíkurborgar um fækkun bílastæða og í dæmaskyni nefnt þegar nágrannar Tækniskólans kröfðust fleiri bílastæða en til stóð að hafa. Sömuleiðis séu verktakar tregir til að fækka bílastæðum þar sem þeir telja að með því móti dragi úr sölulíkum eigna.
„Víða erlendis er samdráttur í framboði bílastæða notaður á markvissan hátt til að draga úr umferð einkabíla í miðborgum.“
Með því að tryggja að íbúum borgarinnar standi til boða öll helsta þjónusta í nánasta nágrenni, og tryggð aðganga að almenningssamgöngum er talið að ætlast megi til að fleiri ferðist með almenningssamgöngum. Þá að sama skapi verði minni þörf á bílastæðum.
„Samtímis sem umferð einkabíla hægist og ferðatími með almenningssamgöngum minnkar þarf að draga úr aðgengi að bílastæðum við vinnustaði og stofnanir m.a. með því að koma á gjaldheimtu vegna þeirra. Í staðinn má koma fyrir hjólastæðum. Huga þarf bæði að meginsamgönguleiðum fyrir allt höfuðborgarsvæðið en einnig að almenningssamgönguleiðum innan hverfa.“
Núverandi og væntanlegum kaupendum eigna á RÚV reiti verður því skylt að deila bílastæðum með starfsmönnum RÚV, sem og starfsmanna þess rekstur sem kemur til með að hefjast á svæðinu, en meðal annars er gert ráð fyrir verslunum og kaffihúsum á reitnum. Sumum eignunum mun ekki fylgja bílastæði, enda gert ráð fyrir 0,8 stæðum á hverja eign. Ætlast er til að fólk nýti sér almenningssamgöngur í auknum mæli eða svokallaða deilibíla sem áformað er að verði í boði á svæðinu. Þetta er í samræmi við stefnu Reykjavíkurborgar að fá fólk í þéttum miðborgarkjörnum til að minnka notkun einkabíla.
Íbúi á svæðinu sér ekki fram á að fyrirkomulagið muni virka eins og vonir standi til:
„Gert ráð fyrir því í deiliskipulagi að það sé 0,8 stæði á hverja íbúð en á sama tíma er opnað fyrir að mörg hundruð manna vinnustaður geti nýtt sér þau líka.“