fbpx
Laugardagur 09.ágúst 2025
Fréttir

Einar Ingi fær 7.5 milljónir: Þunglyndur og með áhyggjur af framtíðinni – „Ég er á móti óþarfa ofbeldi“

Ritstjórn DV
Föstudaginn 8. mars 2019 17:12

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Einar Ingi Marteinsson, sem var einn helsti leiðtogi Hell´s Angels á Íslandi, lagði íslenska ríkið í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrr í dag. Ríkið var dæmt til að greiða honum sjö og hálfa milljón króna í bætur auk vaxta. Einar, sem iðulega er kallaður Einar Boom, sætti gæsluvarðhaldi í rúma fimm mánuði fyrri hluta árs árið 2012 en hann var grunaður um aðild að sérstaklega hættulegri líkamsárás og kynferðisbroti. Hann var sýknaður af því máli og krafðist því bóta vegna gæsluvarðhaldsins.

DV fjallaði ítarlega um málið á sínum tíma. Þá segir í frétt DV frá árinu 2014 að Einar hafi viljað rúmlega sjötíu og fjórar milljónir frá íslenska ríkinu fyrir að hafa setið í gæsluvarðhaldi í hálft ár. Að auki hafa eiginkona Einars og tvö börn hans, það eldra sem þá var tvítugt og hitt rúmlega fjögurra ára, einnig stefnt ríkinu vegna gæsluvarðhaldsins. Meðan á gæsluvarðhaldinu stóð upplifðu þau öll fjögur mikla vanlíðan og óöryggi og kröfðust af þeim sökum bóta.

Einar Ingi og heimilislæknir hans töldu að Einar hefði þjáist af áfallastreituröskun og þunglyndi eftir gæsluvarðhaldið.

Hrottafengin árás í Hafnarfirði

Einar var eins og áður segir handtekinn í tengslum við hrottafengna líkamsárás árið 2011 á konu í Hafnarfirði. Alls voru sex ákærðir í málinu, fyrir að hafa rétt fyrir jólin ráðist inn á heimili konunnar og beitt hana grófu ofbeldi. Í frétt DV frá árinu 2012 sem unnin var upp úr lögregluskýrslum sagði að konan að hún hefði verið kýld hnefahöggi svo hún rotaðist, þá hafi kona í hópnum sparkað ítrekað í hana þar sem hún lá á gólfinu. Þegar hún hafi rankað við sér hafi einn úr hópnum verið með litlar garðklippur og gert sig líklegan til að klippa af henni fingur.

Því næst hafi grímuklæddur maður stungið hönd sinni inn fyrir buxur og nærbuxur og stungið fingrum inn í leggöng og endaþarm hennar og kreist fingurna saman. Hann hafi þá hvíslað að henni:

„Ég er ekki jafn góður strákur og þú hélst að ég væri,“

og spurt hana hvort hún vildi að hann klippti á milli endaþarms og legganga. Þá hafi kona sparkað ítrekað í höfuð hennar. Þá hafi maðurinn rifið niður buxurnar og þá hafi hún misst þvag af hræðslu. Hún sagði að þau hefðu pyntað sig og meitt og skorið hana hér og þar um líkamann. Konan sagðist ekki hafa verið í nokkrum vafa um að árásarmennirnir hafi ætlað að ráða henni bana. Hún sagði:

„Þau tóku húslyklana af mér og síma. Það þarf að læsa með lykli þegar farið er út. Þau læstu mig inni í íbúðinni. Ég man það ekki en vinur minn sagðist hafa sparkað í hurðina og fleira og ég hafi síðan skriðið að hurðinni og opnað fyrir honum en ég man þetta ekki. Þau tóku síma og allt frá mér svo það var ekki hægt að hringja á hjálp. Þannig að ég átti örugglega ekki að lifa þetta af.“

Konan hélt fram að Einar Boom tengdist málinu og var hann grunaður um að hafa skipulagt það. Sat Einar eins og áður segir í gæsluvarðhaldi í lengri tíma vegna málsins. Einar kvaðst hafa blandast inn í málið þegar þolandinn hringdi til hans eina nóttina. Hann hafi vitað hver hún var en hann hafi sjálfur ekkert þekkt hana.

Í opinberri skýrslutöku hjá lögreglu neitaði Einar að tjá sig um málið en gaf þó út munnlega yfirlýsingu.

„Eftir að ég var tekinn í yfirheyrslu þá gaf ég skýrslu sem var í vídeó tekin af ykkur, fyrsta skýrsla. Þar svaraði ég öllum spurningum neitandi. Ég kaus að tjá mig ekki um neitt sem þið spurðuð mig. Niðurstaðan úr því var að þið sögðuð að hér með væri ég handtekinn og á leið í gæsluvarðhald. Þá ákvað ég, fyrst ég kom þessu máli ekkert við, að gefa skýrslu sem að snéri að minni hlið þessa máls. Ég ákvað að segja sannleikann og hann skilaði sér í því að ég var settur í gæsluvarðhald. Þannig þið virðist ekki, hvorki þið né rannsóknarlögreglumenn né yfirboðarar ykkar kæra sig um að heyra sannleikann og ætla ég því ekki að tjá mig um þetta mál.“

Skýrslutöku var á endanum hætt vegna þess að Einar neitaði alfarið að tjá sig um málið.

Í símasambandi við árásarmenn

Í frétt DV frá því 2012 segir að Einar hafi verið grunaður um að skipuleggja árásina en samkvæmt gæslu-varðhaldsúrskurði Hæstaréttar var Einar í miklu símasambandi við árásarfólkið fyrir og eftir árásina.

Einar vildi hins vegar meina að erindi þeirra við hann hafi verið að fá ráðleggingar varðandi mótorhjól sem fórnarlambið átti að hafa tekið og að hann ætlaði að lána þeim bíl. Í úrskurðinum kom fram að lögregla hafi haft sterkan grun um að Einar ætti aðild að málinu og að hann væri sá sem hefði skipulagt og stýrt atburðarásinni. Skýringar hans væru ekki trúverðugar og stæðust ekki í ljósi framburðar annarra og rannsóknargagna almennt.

Einar neitaði staðfastlega sök. Hann var sýknaður bæði í héraðsdómi og í Hæstarétti en fjórir aðilar voru sakfelldir. Vegna málsins sat Einar í gæsluvarðhaldi í sex mánuði. Hluta þess tíma var hann í einangrun. Einar krafðist þess að fá afsökunarbeiðni frá öllum aðilum eftir sýknuna og boðaði málaferli sem nú eru orðin að raunveruleika. Einar vildi bætur en hann sat í einangrun frá miðjum desember fram í miðjan janúar. Á þeim tíma hafði hann því engin tök á að hafa samband við sína nánustu. Frelsissviptingin olli honum miklum kvíða, angist og vanlíðan. Þegar hann var látinn laus úr gæsluvarðhaldi í tvo daga í júní 2012 og svo aftur settur í varðhald varð það til þess að auka vanlíðan hans. Í frétt DV var vitnað í stefnu Einars:

„„Stefnanda [Einari] leið verulega illa á meðan á gæsluvarðhaldi stóð. Um fimm mánaða skeið hafði hann sífelldar áhyggjur af framtíðinni, framtíð fjölskyldu sinnar og afkomumöguleikum.““

„Hann var verulega reiður á þessum tíma, taldi að hann væri hnepptur í gæsluvarðhald án nokkurra raunverulegra sönnunargagna og hann sæti þar vegna orðspors síns en ekki raunverulegra gjörða. Eftir því sem vistin varð lengri hrakaði andlegu ástandi stefnanda, hann varð þunglyndur, að öllum líkindum með áfallastreituröskun, svefntruflanir o.fl.“ segir einnig.

Var forseti Hells Angels á Íslandi

Árið 2011 var Einar í stóru viðtali í DV. Þar ræddi hann um Hells Angels og reynslu sína af því að vera forseti samtakanna.

„Það er krefjandi að vera forseti Hells Angels,“ sagði Einar og bætti við:

„Það er stanslaust áreiti og mikil vinna. Lögreglan andar ofan í hálsmálið hjá mér nánast daglega og það er margt sem þarf að huga að.“

Hann vildi ekki ræða innra starf samtakanna en sagði að Hells Angels væru fyrst og fremst vélhjólasamtök. Til að geta sótt um að fá sækja um að ganga í samtökin þurfti á þeim tíma meðal annars að vera með mótorhjólapróf og eiga Harley Davidson-mótorhjól. Viðkomandi mátti ekki hafa sótt um vinnu hjá lögreglunni, sem fangavörður eða hjá tollstjóra. Þetta er aðeins brot af reglum Hells Angels en þær voru mýmargar. Inntökuferlið tók um tvö ár.

„Það er töff að vera í Hells Angels, eða það finnst mér að minnsta kosti,“

sagði Einar við blaðamann og brosti.

„Það eru margir sem sækja um og vilja verða einhverjir „gangsterar“ en við grisjum svoleiðis menn fljótt út.“ Blaðamaður benti á að það væri ekki beint það orðspor sem færi af samtökunum, að þeir væru kórdrengir upp til hópa. Hann samsinnti því en benti á að margt af því sem sagt væri um samtökin væri vitleysa.

„Við erum hávaðaseggir og ólátabelgir upp til hópa. Höfum alltaf verið, en við erum líka bara venjulegir menn og eigum konur og börn.“

Þá sagði Einar í því sama viðtali að hann væri á móti ofbeldi og lífssýn hans samræmdist hefðbundnum hugmyndum fólks um hvernig haga eigi sínu lífi. Hann lifði eftir eigin reglum á þessum tíma. „Ég geri það sem mér sýnist, hvenær sem mér sýnist, svo lengi sem það skaðar ekki aðra. Ég reyni að lifa eftir þessu eins og kostur er. Það er þó ekki alltaf hægt,“ bætti hann við. Aðspurður hvað honum finndist um ofbeldi hugsaði hann sig um í smástund:

„Ég er á móti óþarfa ofbeldi,“ og bætti við:

„Það eru til margar gerðir af ofbeldi. Andlegt ofbeldi getur verið verra en líkamlegt, það veit ég, en ég bjó með alkóhólista í mörg ár.“

Hætti sem forseti

Eftir að Einar var úrskurðaður í gæsluvarðhald hafði það mikil áhrif á Hells Angels. Hann hafði frá stofnun verið andlit samtakanna. Einar var sýknaður eins og áður segir af árásinni en aðrir sem tengdust Hells Angels dæmdir. .Gæsluvarðhaldið hafði þó afdrifaríkar afleiðingar fyrir stöðu Einars innan Hells Angels því hann var á endanum settur af sem formaður samtakanna og í kjölfarið var mjög hljótt um samtökin. Einar var settur af í „Bad standing,“ þann 14. mars 2012. Í fundargerðabók frá 2012 kom fram að gallavesti hans hafði verið brennt, sem og merki hans.

Í samtali við DV í mars 2012 kvaðst Einar Ingi vera hættur og vildi ekki tjá sig frekar um málið. Í fundargerðabókunum sést vel að Einar var í sambandi við samtökin í gæsluvarðhaldinu. Hann sendi þeim meðal annars bréf þótt ekkert komi fram um efni þess í bókunum.

Á þessum tíma fór einnig verulega að halla undan fæti meðal Vítisengla, samtökin urðu minna áberandi en þau höfðu verið. Á uppgangsárunum ferðuðust meðlimir víða og heimsóttu aðra klúbba auk þess sem þeir fylgdust grannt með „áhangendaklúbbum“ eða „hangarounds“ og tóku inn nýja meðlimi eftir umsóknarferli.

Einar hélt hins vegar fram við DV að hann hefði tekið ákvörðun um að hætta sjálfur.

Loksins niðurstaða

Málið allt hefur tekið langan tíma. Í úrskurði um bæturnar segir:

„Við mat á fjárhæð miskabóta verður að líta til þess að gæsluvarðhaldsvist stefnanda var óvenju löng, eða rúmlega fimm mánuðir, ef undan eru skildir tveir dagar í júní 2012. Var gæsluvarðhaldsvist stefnanda og lengstan hluta þess tíma á því reist að sterkur grunur léki á að hann hefði gerst sekur um mjög alvarleg afbrot. Verður á það fallist með stefnanda að gæsluvarðhaldsvist á slíkum grundvelli hljóti almennt að teljast þungbærari en gæsluvarðhald sem orsakast af rannsóknarhagsmunum, ekki síst við þær aðstæður að um er ræða sakamál sem ítarlega er fjallað um í fjölmiðlum.“

Dómari hafnaði hins vegar bótakröfu hans á grundvelli atvinnumissis þar sem skattframtöl sýndu fram á að hann var næstum tekjulaus í tvö ár áður en hann var úrskurðaður í gæsluvarðhald. Einar vildi eins og áður segir 75 milljónir bætur en fær sjö og hálfa milljón með vöxtum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Segir að FBI muni elta Demókratana frá Texas uppi

Segir að FBI muni elta Demókratana frá Texas uppi
Fréttir
Í gær

Guðni varar við inngripi „innrásarvíkinga“ af stærðargráðu sem engan órar fyrir

Guðni varar við inngripi „innrásarvíkinga“ af stærðargráðu sem engan órar fyrir
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Vallarstjórinn í Þorlákshöfn ómyrkur í máli eftir atvik í gær – „Engin tilraun var gerð til að kanna eða spyrja um ástand starfsmannsins“

Vallarstjórinn í Þorlákshöfn ómyrkur í máli eftir atvik í gær – „Engin tilraun var gerð til að kanna eða spyrja um ástand starfsmannsins“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Bandaríski blaðamaðurinn fannst heill á húfi

Bandaríski blaðamaðurinn fannst heill á húfi