Héraðsdómur Reykjavíkur kvað í gær upp fangelsisdóm fyrir 29 ára gömlum manni, Lofti Karli Magnússyni, fyrir samtals 25 afbrot frá árinu 2017 og fram til síðasta sumars. Langflest brotin eru umferðarlagabrot þar sem Loftur hefur ekið dópaður, oftast sviptur ökuréttindum.
Hvert umferðarlagabrotið rekur annað frá febrúar 2017. Á aðfangadag 2017 var Loftur tekinn í Lækjargötu þar sem hann var á bíl sem hann var ófær um að stjórna sökum ástands síns en í blóði hans mældist þá mikið magn af amfetamíni og MDMA.
Loftur er einnig sakfelldur fyrir peningaþvætti fyrir að hafa haft í fórum sínum þýfi að verðmæti rúm hálf milljón króna. Voru það mest ýmiss konar verkfæri, til dæmis Lombard keðjusög. Loftur er einnig sakfelldur fyrir mörg fíkniefnabrot.
Loftur Karl Magnússon var dæmdur í 15 mánaða fangelsi. Hann er sviptur ökuleyfi ævilangt. Upptæk hafa verið gerð hjá honum fíkniefni, amfetamín, MDMA og kókaín.