„Ég á vinkonu. Vinkonu sem að er spegilmyndin mín. Vinkonu sem klárar setningarnar mínar, les hugsanirnar mínar. Vinkonu sem að hefur gengið í gegnum helvíti og til baka. Yfirvöld hafa brotið á henni oftar en einu sinni og oftar en tvisvar. Hver á að svara fyrir það? Einu sinni var hún alltaf brosandi, alltaf glöð og kát og elskaði lífið. Núna er hún ekki stelpan sem ég kynntist, hún er búin að þurfa að upplifa hluti sem ég óska engum, hluti sem að breyttu henni, gerðu hana hrædda, óörugga, lokaða. Hún er ekki sú sem hún var.“
Þetta segir Valkyrja Sandra í nýrri færslu sinni á síðunni Mæður sem hún beinir til yfirvalda. Þar veltir hún því fyrir sér hvenær brotaþolar fái þá vernd sem þeir eiga skilið.
„Hvenær ætliði að vakna? Hvenær er komið gott? Hvenær fá brotaþolar þá vernd sem þeir eiga skilið? Aldrei? Ég ætla að segja ykkur sögu. Sögu sem hefur breytt lífi mínu, viðhorfi mínu til lífsins og mótað mig fyrir lífstíð.“
Útskýrir Valkyrja það alvarlega heimilisofbeldi sem vinkona hennar gekk í gegnum og þær afleiðingar sem hún tekst á við enn þann dag í dag.
„Hafið þið heyrt um heimilisofbeldi? Sjúka ást? Hún er til. Það var einmitt það sem vinkona mín upplifði. Þessi ást var svo sjúk að ég missti hana næstum því. Ég hefði ekki geta lifað það af. Hún kærði, hann fékk dóm. Fjögurra ára fangelsisdóm sem á að klárast í janúar 2020. En hvað? Hversu marga sénsa eiga svona menn að fá? Hver ætlar að bera ábyrgð á því ef þeir ná að ganga alla leið? Nú eða fórnarlambið tekur sitt eigið líf?“
Greinir Valkyrja frá því að hún sem aðstandandi ásamt fleirum hafi ítrekað þurft að hafa samband við fangelsismálastofnun vegna þess að aðilinn sem beitti vinkonu hennar heimilisofbeldi hafi verið á Internetinu, Facebook og fleiri miðlum en ekkert hafi verið tekið á því.
„Hann fékk að fara í opið úrræði. Hún mætti honum á samkomu, hvað gerði hann þar? Gerði lítið úr henni, blikkaði hana og hló svo framan í hana. Síðan gerist það að hann fær agabrot, beint á hraunið aftur. Það er ekki allt. Hún mætti honum í Smáralind inni í búð að versla. Það vill enginn brotaþoli þurfa að ganga í gegnum það að mæta ofbeldismanninum sem á að vera í fangelsi. Hann fékk að fara á vernd en strauk þaðan. Fangelsismálastofnun gaf brotaþola skýr skilaboð um að eftir þetta strok yrði hann að klára dóminn í fangelsi út janúar 2020. Þið spyrjið ykkur kannski hvar er hann núna? Reynslulausn í tvö ár.“
Segir Valkyrja að ofbeldismaður vinkonu hennar megi ekki hafa samband við hana né megi hann neyta neinna vímuefna en veltir því fyrir sér hver eigi að ylgjast með því.
„Það er korter síðan við fréttum af honum á barnum á Egilsstöðum. Af hverju fá menn með einbeittan brotavilja sénsa? Ef það er eitthvað í þessu lífi sem gerir mig brjálaða. Var brotaþoli látinn vita? Nei. Aldrei, ekki í neitt skiptið sem hann fékk séns. Hvaða sénsa fékk hún? Hún fékk annan séns á að lifa. Á hún ekki skilið að lifa örugg? Hvað með börnin hennar?“
Veltir Valkyrja því fyrir sér hvenær yfirvöld ætli að vakna og spyr sig hvað þurfi að gerast til þess að fólk fái viðeigandi dóma og hjálp.
„Svona menn eru veikir líka, af hverju er þeim ekki hjálpað? Ég hef vakað ófáar næturnar með nístandi áhyggjur inn að beini. Ég get ekkert gert. Vanmátturinn er algjör. Ég get ekkert gert nema verið til staðar fyrir hana og gefið henni alla mína ást og hlustað. Þessi maður lýsti því vandlega fyrir henni hvernig hann ætlaði að borða hana með hníf og gaffli. Hann lúbarði hana, það þurfti að sauma hana saman og hún var með skallabletti í hárinu.“
Greinir Valkyrja einnig frá því að andlega ofbeldið hafa ekki verið minna í sambandinu og að vinkona hennar hafi verið fangi í sínu eigin lífi.
„Hún þurfti að vera heima á ákveðnum tímum sólarhrings svo hann gæti hringt í hana. Hún þurfti að gefa honum skýrslu af öllu. Alltaf. Svo sjúkt. Svo vont. Hvar er hún núna? Henni líður allavega ekki öruggri allt fyrir: „Við viljum gefa föngum sénsa á að bæta sig.“ Ég leyfi mér að segja að hann eigi enga sénsa skilið. Höfum hátt, ofbeldi er aldrei í lagi. Það er til hjálp.“
Segir Valkyrja að hún muni berjast fyrir réttlæti vinkonu sinnar þar til hún dragi sinn síðasta andardrátt.
„Ef þú ert í ofbeldissambandi þá vona ég frá mínum dýpstu hjartarótum að þú leitir þér hjálpar. Það er von, þú átt betra skilið. Ég fæ vinkonu mína aldrei sama til baka, hún mun þurfa að bera þetta með sér að eilífu. Ofbeldi er dauðans alvara. Ekki láta bros blekkja. Ég mun berjast fyrir réttlæti fyrir vinkonu mína þangað til ég dreg minn síðasta andardrátt. Alltaf. Því get ég lofað ykkur. Fangelsismálastofnun, girtu þig.“