Karl Steinar Valsson, yfirmaður miðlægrar rannsóknardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, telur að um 60 vændiskonur séu starfandi á höfuðborgarsvæðinu hverju sinni. Hann telur að vændi á landsbyggðinni sé að aukast. Um þrír fjórðu vændiskvennanna eru erlendar. Þetta kom fram í fréttaskýringaþættinum Kveikur sem var á dagskrá RÚV í kvöld.
Kveikur fór með falda myndavél á kampavínsstaði í Reykjavík og kom þá í ljós að lög sem banna nektardans eru þverbrotin á stöðunum.
Rætt var við vændiskonuna Guggu sem segst njóta starfsins. Segir hún að vændiskonur sé ávallt álitnar vera fórnarlömb en engum virðist detta í hug að konur geti einfaldlega verið graðar.
Starfskonur Stígamóta sögðu að allar vændiskonur ættu tímabil þar sem þær upplifðu vald yfir aðstæðum og sigurgleði. Því miður væri niðurbrotið síðan mikið.
Eva Dís starfaði sem vændiskona í Kaupmannahöfn. Mest segist hún hafa afgreitt 14 kúnna á einni vakt. Eva Dís varð fyrir miklu kynferðisofbeldi í æsku og var andlega niðurbrotin. Einu sinni mætti hún viðskiptavini sínum í strætisvagni eftir vakt og segist hún þá hafa upplifað að hún væri á valdi hans og hefði ekkert vald á aðstæðunum.
Árið 2009 voru sett lög sem banna kaup á vændi en leyfa sölu þess. Í lögunum er vændi skilgreint sem ofbeldi. Síðan þá hafa 202 vændismál komið upp hjá lögreglunni í Reykjavík, var sakfellt í 48 þeirra, 42 fengu sekt og 6 fengu fangelsisdóm fyrir ítrekuð brot.
Þeir sem starfa við málaflokkin telja að vændi sé alltaf að aukast á Íslandi.