Mikið er um vændi á Íslandi. Eftirspurnin er mikil og vændiskaupandinn er oftast venjulegur maður sem gjarnan er giftur eða í sambandi. Seljendur vændis lifa oft í sjálfsblekkingu, blekkingu um að starfið færi þeim hamingju en hamingjusama hóran er samt mýta, enginn vill í rauninni vera í þessum sporum. Um þetta og meira verður fjallað um í fréttaskýringaþættinum Kveik í kvöld þar sem fréttamenn kafa djúpt í heim vændis á Íslandi. Lára Ómarsdóttir, fréttakona, mætti í Morgunútvarp Rásar 2 í morgun til að kynna þáttinn.
Lára segir að vændi á Íslandi sé aðallega í miðbænum, þá einkum í íbúðum sem leigðar eru út skamman tíma í senn.
„Þetta er aðallega í airbnb íbúðum niðri í bæ. Niðri í miðbæ, götum sem liggja nálægt Laugavegi. Aðallega þar. Einstaka er á hótelherbergjum.
Vændi á Íslandi má, samkvæmt Láru, skipta í tvennt. Annars vegar eru það erlendar konur sem koma til Íslands, leigi íbúð fyrir starfsemina, og fari svo aftur úr landi, þá gjarnan til að stunda vændi í öðrum löndum þar sem sala vændis er lögleg. Hins vegar eru það íslenskar konur sem taka jafnvel á móti kúnnum heima hjá sér. Íslenskar konur eru þó, telur Lára, í miklum minnihluta, líklega um 10-20 prósent af starfandi vændiskonum. Þær íslensku konur sem snúa sér að vændi eru gjarnan í erfiðum stöðum, vantar pening.
Einn viðmælenda Kveiks er kona sem hefur lagt stund á vændi í 8 ár. Lára segir það sláandi að hitta fyrir manneskju sem hefur verið jafn lengi í þessum bransa.
Láru finnst íslenskt samfélag ekki gera nóg til að styðja við seljendur vændis, hvorki þegar kemur að því að halda utan um viðskiptin eða þegar kemur að því að styðja seljendur í því að hætta.
„Það sem er sameiginlegt með þeim öllum, og það er það sem stendur eftir, er að þetta er bara venjulegt fólk með tilfinningar, drauma og þrár. Mér finnst svolítið sorglegt að við, sem samfélag, erum í rauninni ekki með neitt almennilegt utanumhald. Það hafa aldrei verið gerðar neinar stórar rannsóknir á Íslandi.“
„Það er erfitt fyrir þær að hætta og enginn staður sem getur hjálpað þeim fjárhagslega út úr þessu. Það er erfitt fyrir þær að koma og segja frá þessari reynslu.“
„Þessu fólki sem selur vændi því líður illa, það vill ekkert vera í þessum sporum.“
Hinn týpíski vændiskaupandi er bara venjulegur maður, maður í ágætis starfi og stöðu, jafnvel fjölskyldumaður.
„Þeir eru flestir í sambandi eða hjónabandi, eiga fjölskyldu og eru að þessu af einhverri spennufíkn.“
„Það er líka annað sem kom svolítið á óvart er að þeir eru bara svo venjulegir. Við fórum sem sagt og hittum nokkra eða fengum nokkra til að koma og hitta okkur. Þegar maðurinn minn spurði mig svo: „Hvernig menn voru þetta?“ og svarið mitt var bara: „Þeir eru bara eins og þú“.“
Kona sem Kveikur átti samtal við greindi frá því að hún eigi sína föstu kúnna. Til dæmis einn sem kemur á hverjum mánudagsmorgni klukkan 8 um morguninn, fyrir vinnu. Sumir fastakúnnar koma vikulega, aðrir hálfsmánaðarlega eða einu sinni í mánuði. Lára segir að eftirspurnin eftir vændi sé gríðarleg. Fréttamenn Kveiks bjuggu til gerviaðgang á samfélagsmiðlum þar sem þau viltu á sér heimildir. Þau auglýstu þó ekki vændi til sölu heldur notuðu lýsinguna:
„Til í skyndikynni – góð í öllu“
Þá rigndi yfir þau skilaboð frá aðilum sem vildu versla kynlíf.
Hamingjusama hóran er mýta. Lára telur að um sé að ræða tálmynd sem seljendur vændis þurfi að búa til, til þess að geta sinnt starfi sínu.
„Allar eru sammála um það, langflestar, að þegar þú ert í þessu, þegar þú selur þig, þá verðurðu líka að selja þér þá hugmynd að þú sért hamingjusöm í þessu, að þú viljir það. Annars gætiru ekkert gert þetta.“
Þegar hún byrjaði fyrst að kafa í umfjöllunarefni segir Lára að hún hafi verið opin fyrir þeirri hugmynd að hamingjusama hóran væri til.
„Ég lagði alveg upp með það að það væri alveg til í dæminu að fólk elskaði bara kynlíf svona mikið.“
En í dag segir Lára að þetta sé bara hugmynd sem seljendur vændis reyna að telja sér trú um.
„Þetta er spilaborg sem hrinur einn daginn.“
Fréttaskýringarþátturinn Kveikur verður sýndur í kvöld klukkan 19:50 eftir Kastljós og Menningu. Lára hvetur einkum þá sem kaupa vændi til að horfa á þáttinn.
„Hvet þá sem kaupa vændi til að horfa á þáttinn,“ segir Lára að lokum.