Maður hafði samband við lögreglu um hálfníuleytið í morgun og sagðist hafa verið rændur í Hafnarfirði. Maðurinn sagðist hafa ekið öðrum manni bæjarleið og eftir aksturinn hafi maðurinn dregið upp hníf, ógnað honum og tekið veski hans og fleira. Málið er í rannsókn.
Kom þetta fram í dagbók lögreglunnar laust fyrir hádegi. Segir einnig frá því að um hálfsjöleytið í morgun var bíll stöðvaður á Reykjanesbraut. Hann reyndist vera ótryggður og voru skráningarmerki klippt af. Snemma í morgun voru tveir bílar stöðvaðir og ökumenn grunaðir um akstur undir áhrifum áfengis og fíkniefna.