Á öðrum tímanum í nótt lenti dyravörður í vandræðum með gest á veitingahúsi í Hafnarfirði. Lögreglan mætti á staðinn og leysti málið en í ljós kom að fleiri dyraverði vantaði til að halda uppi reglu á staðnum.
Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar. Mikið var að gera hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöld og nótt og margir ökumenn voru stöðvaðir vegna gruns um að aka undir áhrifum fíkniefna eða áfengis.
Um tvöleytið í nótt réðst drukkinn maður á dyravörð í miðbænum, var hann handtekinn og vistaður í fangageymslu.
Laust eftir miðnætti var tilkynnt um heimilisofbeldi í hverfi 104. Gerandinn var handtekinn og vistaður í fangageymslu. Einnig var tilkynnt um heimilisofbeldi í miðbænum og er það mál í rannsókn.
Skömmu fyrir miðnætti var tilkynnt um mann sem datt á höfuðið í miðbænum vegna áfengisneyslu. Hann var með skerta meðvitund og var fluttur á Slysadeild til aðhlynningar.