Páll Magnússon, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, er ánægður með ákveðna og árvökula lögreglumenn á Suðurnesjum. Hann var látinn blása í áfengismæli í morgun og fékk síðan áminningu fyrir óæskilega hegðun undir stýri. Páll tók þessu vel og skrifaði léttan pistil um reynslu sína:
Tvöföld áminning! Það var traustvekjandi að hitta fyrir árvökula lögreglumenn við Grindavíkurafleggjarann í morgun. Allir bílar stöðvaðir og ökumenn látnir blása! Þegar ég var búinn að því þurfti ég að bíða aðeins og kíkti á símann. Þá var bankað aftur á bílrúðuna og ég leit upp og sagðist vera búinn að blása. “Ég veit það”, sagði löggan hvassyrt, “en þú átt ekki að nota símann undir stýri!” Ég ók skömmustulegur á brott.