„Ég held að mín mesta gæfa í lífinu sé að vera ekki á Facebook, ég sé aldrei eftir þeirri ákvörðun,“ segir Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, en hörð umræða um kjaramál á sér stað á samfélagsmiðlum og er yfirlýsing Halldórs gefin í því samhengi. Halldór var í viðtali á Hringbraut og Kjarnanum. Hann er afar óhress með miklar launahækkanir nokkurra ríkisforstjóra sem hafi sent kolröng skilaboð inn í kjaraviðræðurnar:
„Þetta hefur valdið mjög miklum skaða. Það er mjög erfitt fyrir okkur að kljást við þetta. Þetta eru siðferðisleg álitaefni, þetta eru kannski hlutir sem skipta kannski ekki öllu máli í þessu þjóðhagslega samhengi en hafa ofboðslega slæm áhrif á mórallinn í þessum viðræðum og þar af leiðandi eitthvað sem ég hef talað mjög hart gegn.“
Halldór segir jafnframt í viðtalinu að lausnir í húsnæðismálum væru lykillinn að bættum hag landsmanna. Halldór ræddi einnig um áhrif mikillar verðbólgu á hag heimila:
„Það er örugglega engin þjóð sem er betur að sér í áhrifum verðbólgu á hag almennings en akkúrat Íslendingar. Við munum alveg hvernig er að kljást við fasteignalán í vaxandi verðbólgu. Við eigum að forðast að hleypa verðbólgunni af stað og við eigum að forðast það að ganga svo hart að fyrirtækjunum í landinu að þeirra eina andsvar verði að fara í uppsagnir í mjög stórum stíl.“