Sonur Láru Kristínar er háður því að ganga með gleraugu á nefinu en sjón hans er mjög slæm og fer sífellt versnandi. Þegar Úlfar sem er átta ára gamall fékk sín fyrstu gleraugu voru þau með -6 í styrkleika en í dag þarf hann að hafa -8 á öðru auga en -7 á hinu.
Er Úlfar því háður því að ganga með gleraugu á sér og mikilvægt fyrir hann að eiga gleraugu fyrir öll tækifæri. Hann þarf því að eiga íþróttagleraugu, sundgleraugu og gleraugu til þess að ganga með dagsdaglega.
„Gleraugun hans kosta aldrei minna en 59.000, íþróttagleraugun um 35.000 og sundgleraugun á bilinu 10-40 þúsund. Svo til þess að kappinn okkar sé með sömu lífsgæði og við flest í daglegu lífi, það er að sjá, þá kostar það á bilinu 105.000 til 135.000 krónur,“ segir Lára Kristín sem í samtali við blaðakonu segist vilja ná til eyrnanna á sem flestum varðandi málefni sitt.
„Fyrir öll þessi gleraugu sem okkur finnst sjálfsagt að barn með þetta mikla nærsýni hafi, fáum við heilar 11.800 krónur á ÁRI í endurgreiðslu. Ekki krónu meira. Punktur. Sem er næst hæðsta þrepið, hámarks greiðsla er 15.000 krónur. Þegar hann verður níu ára þá eigum við bara rétt á endurgreiðslu annað hvert ár.“
Segist Lára fegin því að þau hafi efni á því að veita syni sínum þau lífsgæði að kaupa handa konum gleraugu en vekur hún athygli á því að sjónskert börn fæðist líka inn í efnalitlar fjölskyldur.
„Og hvað þá? Getið þið ímyndað ykkur bömmerinn í mömmuhjartað þegar ég fattaði síðastliðið sumar, þegar trampólínslysin voru sem tíðust, að ég var farinað hugsa „GLERAUGUN“ áður en ég hugsaði um það hvort Úlfar hafði meitt sig. Enda braut hann þrenn það sumar.“
Þegar Lára leitaði svara hjá þjónustu og þekkingarmiðstöðinni fékk hún staðfestingu á því að svona hafi niðurgreiðslan alltaf verið.
„Hann sagði bara: „Já, svona hefur þetta alltaf verið.“ Ahhh okey, alltaf verið, þá getum við að sjálfsögðu ekki breytt því. Það er ótrúlegt hvað maður verður öðruvísi sár og reiður þegar þetta birnar á kökuskrauti lífsins, börnunum.“