Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu, félags fanga og annarra áhugamanna um bætt fangelsismál og betrun, segir tíma til kominn að endurskoða þá stefnu ríkisins að dæla fjármagni í félagasamtök á borð við SÁÁ. Tilefnið er yfirvofandi lokun SÁÁ á göngudeild sinni á Akureyri þrátt fyrir að fjármagn til rekstursins frá ríkinu sé tryggt.
Guðmundur skrifar pistil um málið á Facebook-síðu sína. Þar segir hann að einkarekstur félagasamtaka á ríkisspena sé ekki vænlegur kostur sem meðferðarúrræði fyrir þá sem lenda í fíknivanda. „Því miður hefur reksturinn snúist upp í andhverfu sína frá því reksturinn hófst með mannúðarsjónarmið að leiðarljósi, þar sem baráttan virðist nú í æ meira mæli snúast um að eltast við aukið fjármagn,“ skrifar Guðmundur. Vill hann láta árangursmæla starfsemi samtaka á borð við SÁÁ og að tími sé kominn til að taka á faglegum vanda samtakanna. Pistillinn er eftirfarandi:
„Eins mikilvægt og það nú er að hafa öflug meðferðarúrræði á Íslandi fyrir þá sem lenda í vanda vegna misnotkunar lyfja eða annarra ávanabindandi efna, þá virðist sem einkarekstur félagasamtaka sem er á ríkisspena sé ekki alls ekki vænlegur kostur. Reglulega er tilkynnt um rekstrarvanda sem kallar á að biðlistar lengjast, ekki er hægt að taka á móti tilteknum hópum samfélagsins – eins og föngum – með ákalli um að þessum hópum þurfi að fylgja fjármagn.
Því miður hefur reksturinn snúist upp í andhverfu sína frá því reksturinn hófst með mannúðarsjónarmið að leiðarljósi, þar sem baráttan virðist nú í æ meira mæli snúast um að eltast við aukið fjármagn. Þrátt fyrir að tryggt hafi verið fjárframlag af hálfu ríkisins til starfsemi göngudeildar SÁÁ á Akureyri í fjárlögum þessa árs, stendur nú til að loka henni – frá og með morgundeginum.
Löngu er kominn tími til að hið opinbera geri árangursmælingar á þeirri starfsemi sem hún lætur aðra inna af hendi. Það er enda ekki hægt að þvo hendur sínar af þeim heilbrigðisvanda sem um ræðir með því að dæla fjármagni í félagasamtök sem virðast hafa takmarkaða samfélagsábyrgð. Nú er lag að taka á þessum vanda – og ég á þar ekki við fjárhagsvanda, heldur hinn faglega vanda!“