Bílaleigunni Fair Car, var ekki heimilt að víkja tveimur starfsmönnum frá störfum án þess að greiða þeim kjarasamningsbundinn uppsagnarfrest samkvæmt dómum Héraðsdóms Reykjavíkur.
Fair Car afhenti í desemberlok tveimur starfsmönnum sínum uppsagnarbréf þar sem þeim var fyrirvaralaust vikið úr starfi fyrir að hafa gerst sekir um alvarleg brot í starfi.
Var þeim gert að sök að hafa svikið fé af vinnuveitanda sínum með því að misnota stimpilklukku vinnustaðarins og að hafa gerst sekir um vanrækslu í starfi með því að fara ekki eftir fyrirmælum.
Starfsmennirnir tveir eru jafnframt hjón frá Póllandi, og var konan þunguð þegar uppsagnirnar áttu sér stað. Fyrir dómi vildi hún meina að hún hefði gert vinnuveitanda sínum grein fyrir þunguninni og því hefði uppsögnin verið brot gegn lögum um fæðingarorlof sem verndar væntanlega foreldra frá því að að vera vikið úr störfum fyrir að eiga von á sér. Hjónin báru vinnuveitanda sinn jafnframt þungum sökum en í dóminum segir í málsástæðum þeirra:
„Þá hafi fulltrúi hjá stéttarfélagi stefnanda upplýst að stefndi hafi leitað þangað veturinn 2017 í því skyni að fá aðstoð við að segja upp starfsmönnum með sem minnstum tilkostnaði.
Í þessum tilgangi hafi meðal annars verið gerð tilraun til að flytja starfsmenn á milli stéttarfélaga til að stytta kjarsamningsbundinn uppsagnarfrest.“
Dómari taldi það ósannað gegn neitun vinnuveitanda að konan hefði tilkynnt um þungun sína, áður en til uppsagnanna kom. Stimpilklukkusvind þeira hjóna þótti hins vegar sannað en dómari taldi það þó ekki vera brottrekstrarsök án undanfarandi áminningar.
„Ekkert liggur fyrir umað stefnanda hafa verið veitt áminning af nokkru tagi áður en stefndi sagði henni upp störfum.“
Því hefði Fair Car ekki verið heimilt að svipta hjónin kjarasamningsbundnum uppsagnarfresti sínum. Var fyrirtækinu gert að greiða þeim mánaðar uppsagnarfrest, að frádregnum atvinnuleysisbótum sem þau höfðu fengið.