Starfsmaður í Klettaskóla, sérskóla fyrir nemendur með þroskahömlum, greindist með berkla í síðustu viku. Frá þessu er greint á vef Fréttablaðsins en þar segir að allir nemendur og starfsfólk muni fara í próf til að kanna hvort þeir hafi smitast.
Berklar geta verið lífshættulegur sjúkdómur en algengasti orsakavaldurinn eru bakteríur. Lyf eru til við sjúkdómnum sem var algengur hér á landi um aldamótin 1900.
Í frétt Fréttablaðsins er haft eftir Árna Einarssyni, skólastjóra Klettaskóla, að skólinn sé í samstarfi við embætti sóttvarnarlæknis vegna málsins. Hann kveðst hafa sent erindi á foreldra vegna málsins en ekki er talin mikil hætta á smiti í skólanum. Nemendur verða sendir í próf en þrjá daga tekur að fá niðurstöður úr því.
„Ég skil það vel að fólk vilji vita þetta strax og vilji drífa í þessu, en það er ekki að missa af neinu. Það er ekki verið að taka neina áhættu eða tefla neinu í tvísýnu. Þvert á móti er verið að gera þetta á eins öruggan hátt og hægt er,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir í samtali við vef Fréttablaðsins.