fbpx
Föstudagur 08.ágúst 2025
Fréttir

Jóhanna fer yfir ásakanir gegn Jóni Baldvin og segir Bryndísi vera meðvirka

Ágúst Borgþór Sverrisson
Þriðjudaginn 26. febrúar 2019 13:09

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Jóhanna Magnúsdóttir, sóknarprestur á Kirkjubæjarklaustri, hvatti vinkonu sína, Matthildi Kristmannsdóttir, til að stíga fram og segja frá áreitni sem hún segist hafa orðið fyrir af hendi Jón Baldvins Hannibalssonar er hann kenndi henni í Hagaskóla árið 1967. Jóhanna segir að á þessum tíma hafi börn þagað yfir áreiti af þessu tagi og þeim sem sögðu frá hafi jafnvel ekki verið trúað. Þetta þekki hún best sjálf en hún var áreitt af föður vinkonu hennar.

Jóhanna fer yfir hluta af ásökunum gegn Jóni Baldvini í löngum pistli á Facebook-síðu sinni. Þar lætur hún að því liggja að viðbrögð Bryndísar Schram við ásökunum á hendur eigimanni hennar beri vitni um meðvirkni. Jóhanna segist þekkja vel slíka meðvirkni af eigin reynslu:

„Eiginkona kennarans stendur með sínum manni, – ég skil það, ég hef verið svona eiginkona. – Við stöndum saman í gegnum súrt og sætt og lifum í afneitun vegna þess að sannleikurinn er of sár og föttum ekki að falsið er öllu verra.“

Jóhanna beinir jafnframt spurningu til þeirra sem setja „like“ við orð Bryndísar á Facebook þar sem hún skrifar: „Ég vil fá að þakka ykkur öllum fyrir stuðninginn. Nú veit ég hverjir eru mínir vinir – sem standa með okkur þegar á ríður.“

„Þið sem settuð „like“ á þennan status hennar, trúið þið ekki frásögnum allra þessara kvenna? Ég skil ekki?“

Jóhanna segir að hjónin séu á margan hátt ágætar manneskjur en sannleikurinn verði að koma fram, hinir meðvirku viðhaldi lyginni og meðvirknin viðhaldi skaðanum. 23 konur sem hafi stigið fram og ásakað Jón Baldvin geti ekki verið að gera sér að leik að ljúga upp á hann:

„Jú, þau eru ágætar manneskjur á svo margan hátt – og kennarinn er líka klár pólitíkus. En það núllar ekki út það sem hann hefur gert á hlut þessara kvenna sem hafa stigið fram. –

Það er ekki hægt að láta hið illa grassera – ég get ekki setið hljóð hjá. Þess vegna skrifa ég þetta – ég lofaði vinkonu minni stuðningi og þetta er skrifað til heiðurs henni og þeim konum sem hafa sýnt hugrekki að stíga fram.“

 Reyndi að láta þolandann efast um minningar sínar

Í viðtali í Silfrinu kannaðist Jón Baldvin ekki við að hafa kennt þeim Matthildi Kristmundsdóttur og Maríu Alexandersdóttur sem báðar sökuðu hann um áreitni í Melaskóla árið 1967. Athugun Borgarskjalasafns að beiðni DV og Stundarinnar leiddi þó í ljós að Jón Baldvin hafði kennt þeim íslensku. Um þetta skrifar Jóhanna í ummælum undir pistli hennar:

„Það má bæta því við að þegar vinkona mín kemur fram með sögu sína og hún gerir það undir nafni, kannast kennarinn ekki við að hafa kennt henni né bekknum hennar. Það er kallað “gaslighting” eða crazy making svo að fórnarlambið fer jafnvel að efast um minningar sínar. Í þessu tilfelli voru þó bæði vitni sem gátu staðfest frásögn og síðan stundaskrá. En það virðist ekki skipta gerandann neinu.
Engin iðrun og algjört frávarp þar sem allir eru sökudólgar og samsærismenn nema hann og þessir “vinir” þeirra.“

Pistill Jóhönnu Magnúsdóttur, sóknarprests á Kirkjubæjarklaustri, er eftirfarandi í heild sinni:

Að gefnu tilefni:

Árið er 1967. Ung stúlka verður fyrir áreitni kennara síns. – Hún talar við vinkonu sína – sem ræðir við bekkjarfélagana og þeir rísa upp stúlknni til varnar, svo hún þarf ekki lengur að sitja eftir. –

Á þessum árum var fullorðna fólkinu ekki sagt frá. Það tíðkaðist ekki. Í sumum tilfellum var börnunum heldur ekki trúað.

Ég veit það vegna þess að ég ræddi það ekki sjálf þegar ég var beitt áreiti af föður vinkonu minnar.

Kynferðislegt áreiti fullorðins kennara er líka valdníðsla. Það er níðst á minni máttar. – Glæpurinn er stór.

Glæpurinn er svo stór – að hann situr sem fastast í taugakerfi stúlkunnar, sem nú er nú kona á sjötugsaldri. Konunni er sagt, m.a. af mér að hún eigi að segja frá og það sem meira er; MEGI segja frá, því nú sé öldin önnur og það sé ekki lengur skömm að „leyfa“ einhverjum að brjóta á sér. (Það er upplifun sem fórnarlömbin fá stundum – að brotið sé þeim sjálfum að kenna).

Ein af ástæðunum að ég hvatti konuna til að segja frá var til þess að stöðva þennan mann, sem er enn að. Hún myndi líka gera gagn með því að þora að tala, því þá þyrðu fleiri að tala. Það er stuðningur í því að vita að aðrir þora að segja frá. Þess vegna er #metoo – „Ég líka“ – Já við verðum kannski hissa, hversu mörg „mítúin“ eru orðin, – en það er líka vegna þess hversu mörgum leyndarmálum hefur verið sópað undir teppi, og örugglega eitthvað sem er þar ennþá. –

Eiginkona kennarans stendur með sínum manni, – ég skil það, ég hef verið svona eiginkona. – Við stöndum saman í gegnum súrt og sætt og lifum í afneitun vegna þess að sannleikurinn er of sár og föttum ekki að falsið er öllu verra. –

Lykillinn að lífshamingjunni er að eiga ekki leyndarmál. Það veit ég núna. – Sannleikurinn er grimmur, en hann frelsar samt. –

Hverjir viðhalda falsinu og lygunum? – Það eru hin meðvirku sem vorkenna gerandanum og eiginkonunni. – Hún heldur því samt fram að hinir raunverulegu vinir hennar séu þeir sem trúi engu slæmu upp á bóndann og að 23 konur séu að gera sér það að leik að ljúga upp á hann. Hvers vegna ættu þær að gera það? – Eins og það sé svona gaman að koma fram, vitandi það að það sé alltaf einhverjir dómarar sem vita betur. – 
Sem vita hvar þú varst þegar þú varst unglingsstúlka í lokaðri skólastofu með kennaranum – og vita að hann sleikti ekki á þér hálsinn eða hvað? –

Nei – nú veit eiginkonan hverjir eru vinir hennar. Þeir eru fólkið sem kóar með henni í afneituninni. En þeir vita kannski ekki að meðvirkni er ekki góðmennska. – Meðvirkni er að ala á skaðlegri hegðun. –

Mig langar til að vinir mínir pæli aðeins í þessu – þegar þið eruð að vorkenna kennaranum og frúnni.

Jú, þau eru ágætar manneskjur á svo margan hátt – og kennarinn er líka klár pólitíkus. En það núllar ekki út það sem hann hefur gert á hlut þessara kvenna sem hafa stigið fram. –

Það er ekki hægt að láta hið illa grassera – ég get ekki setið hljóð hjá. Þess vegna skrifa ég þetta – ég lofaði vinkonu minni stuðningi og þetta er skrifað til heiðurs henni og þeim konum sem hafa sýnt hugrekki að stíga fram. –

Ég stend við það.

Eiginkonan skrifaði: 
„Ég vil fá að þakka ykkur öllum fyrir stuðninginn. Nú veit ég hverjir eru mínir vinir – sem standa með okkur þegar á ríður.“

Þið sem settuð „like“ á þennan status hennar, trúið þið ekki frásögnum allra þessara kvenna? Ég skil ekki?

Árið er 2019 – höfum við ekki önnur skilaboð að senda ungum stúlkum í dag – á ekki að segja frá?

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Ragnar segir fólk flykkjast í Reynisfjöru: „Þetta hefur alltaf verið svona þegar verður slys“

Ragnar segir fólk flykkjast í Reynisfjöru: „Þetta hefur alltaf verið svona þegar verður slys“
Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Segja það ganga kraftaverki næst að hann hafi fundist á lífi

Segja það ganga kraftaverki næst að hann hafi fundist á lífi
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Kristín neitaði að gerast njósnari fyrir Þjóðverja og mátti þola fangavist fyrir – „Þeir buðu mér gull og græna skóga“

Kristín neitaði að gerast njósnari fyrir Þjóðverja og mátti þola fangavist fyrir – „Þeir buðu mér gull og græna skóga“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Slagsmál á ströndinni eftir að rússneskt lag var spilað – Sjáðu myndbandið

Slagsmál á ströndinni eftir að rússneskt lag var spilað – Sjáðu myndbandið