Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag. Blaðið hefur eftir Ingibjörgu Ólafsdóttur, framkvæmdastjóra Hótels Sögu og varaformanni Samtaka ferðaþjónustunnar, að það sé grafalvarlegt að beina verkföllum að hótelum, veitingastöðum og hópferðabílafyrirtækjum. Þau fyrirtæki ættu kannski síst að vera skotmark aðgerðanna enda forstjórar þeirra fæstir á forstjóralaunum.
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, sagði í gær að aðgerðirnar beinist gegn þeim fyrirtækjum í ferðaþjónustunni sem hafi breiðustu bökin.
Félögin hafa tilkynnt að fyrsta verkfallið verði þann 8. mars næstkomandi þegar fyrirhuguð er vinnustöðvun ræstingafólks innan Eflingar sem starfar á hótelum. Í kjölfarið eru sex stutt verkföll á döfinni en þau munu einna helst beinast að hótelum, veitingastöðum og hópferðabílafyrirtækjum. Í apríl verður síðan boðað til allsherjarverkfalls ef ekki hefur samist.
Fréttablaðið hefur eftir Ingibjörgu að launakostnaður sé mjög mikill hjá ýmsum hótelum eða um helmingur útgjalda og hafi aukist eftir kjarasamningana 2015. Þá sé að hægja á straumi ferðamana til landsins og fyrirtækin gætu neyðst til að skera niður ef það kemur til mikilla hækkana.