Á mánudaginn greindi DV frá ótrúlegum dónaskap sem Valgerður Reynisdóttir varð fyrir við störf í Krónunni út af húðlit sínum. DV ræddi við Valgerði sem greindi fyrst frá atvikinu í Facebook-hópnum Sögur af dónalegum viðskiptavinum. Eftir frétt DV sköpuðust miklar umræður og margir sem lýstu svipaðri reynslu, reynslu af kynþáttar- og útlendingahatri og fordómum á grundvelli trúar.
Blaðamaður hafði samband við nokkrar konur sem höfðu opnað sig til að heyra nánar um reynslu þeirra. Ljóst er að kynþátta – og útlendingahatur er líklegra mun meira en Íslendingar hafa talið sér trú um.
Sjá einnig: Valgerður í áfalli í Krónunni – „Þér hlýtur að líða mjög illa að þurfa að nota þetta orð“
Medina Elsharkavi er Íslendingur og hefur verið múslimi í eitt ár. Hún sagði í samtali við blaðamann að um leið og hún tók upp slæðuna hafi viðmót fólks gagnvart henni gerbreyst. Hún var orðin ein af „hinum og fór að finna fyrir fordómum samlanda sinna.
„Maður kom inn á bar/veitingastað sem ég vann á og um leið og hann sá mig öskraði hann að múslimar ættu ekki heima hér, að kristið fólk ætti ekki að þurfa að sjá svona fólk og reyndi að ráðast á mig og lemja mig. Ég var mjög heppinn að samstarfsmenn mínir brugðust hratt við og þrír karlmenn og einn kvenmaður hentu honum út.“
Medina lendir líka í því að fólk gangi út frá því að hún sé erlend, bara vegna þess að hún klæðist hijab slæðu. Hún sagði blaðamanni frá versta tilviki fordóma sem hún hefur lent í, þennan skamma tíma sem hún hefur verið múslimi.
„Það versta yfir höfuð var þegar ég var úti ein snemma á mánudagskvöldi og tveir menn sem gengu framhjá öskruðu „helvítis múslimaógeð“. Þeir snéru svo við, eltu mig, réðust á mig og hentu mér uppvið vegg, lömdu mig, kysstu mig og rændu af mér pening og skartgripum og giftingarhringnum mínum“
Fjallað var um þetta hræðilega atvik í fjölmiðlum á síðasta ári en þá var ekki greint frá nafni Medinu. Hún segir það algengt að fólk haldi því fram við hana að hún hafi verið þvinguð af erlendum eiginmanni sínum til að skipta um trú „og að slæðan sé kúgunarmerki en ekki eitthvað sem að ég valdi alveg sjálf.“
Gerda Eidukaite var að vinna á elliheimili fyrir nokkrum árum síðar. Samstarfskona hennar var líka erlend og þær töluðu því sitt tungumál sín á milli.
„Þetta gerðist fyrir nokkrum árum en ég og vinkona mín sem var að vinna með mér á elliheimili vorum að spjalla saman í matarpásu hjá okkur og tvær íslenskar konur sem voru að vinna með okkur urðu pirraðar að við vorum að tala saman á okkar móðurmáli og bað okkur um að setjast annars staðar ef við tölum ekki íslensku. Við vorum hissa en færðum okkur annars staðar.“
Svo var hjúkrunarfræðingur sem var alltaf leiðinlegri við fólk sem kom frá öðru landi og var með stæla við þau. Það var eitt skipti sem ég man vel eftir að ég mætti í vinnuna um 18:00 og ein kona, man ekki frá hvaða landi hún er var búin að lenda í slæmum aðstæðum með þessari hjúkku. Hún ákvað að fara heim en sagði við hjúkkuna áður en hún fór að hún væri veik áður en hún fór. Það sást að henni leið illa. Hjúkkan síðan skrifaði að hún hafi bara labbað út án þess að láta vita sem var ekki satt því ég sá það gerast. Það er mikil rasismi finnst mér, á elliheimilum aðallega, líka frá aðstandendum því maður fékk oft að heyra: „Af hverju vinna bara útlendinga hér?”eða: „Gamla fólkið skilur ekki þetta fólk” sem var alls ekki satt því gamla fólkið skildi alveg spurningarnar.“
Í dag er Gerda sem betur fer ekki lengur starfandi á elliheimilinu heldur komin í starf þar sem mun meira umburðarlyndi ríkir.
Í hópnum greindu líka nokkrir frá fordómum sem þeir höfðu ekki lent í sjálfir, heldur orðið vitni af. Fyrir nokkrum árum síðan var Helga Vala Garðarsdóttir við störf í grunnskóla þar sem hún varð vitni að leiðinlegum orðaskiptum milli tveggja ungra drengja.
„Ég var í sjálfboðavinnu við grunnskóla þar sem ég var að hjálpa við að láta krakkana lesa. Strákarnir hafa verið í kringum 7 ára og ég tók eftir því að þeir voru farnir að slást. Ég ætlaði því að fara, brjóta upp slagsmálin og sjá hvað væri í gangi. Þá segir annar drengurinn, sem var dökkur á hörund, með tárin í augunum að hinn drengurinn hefði sagt honum að hann ætti bara heima í klósettinu með öllum hinum kúknum. Ég hugsaði bara hvernig dettur honum í hug að segja þetta.“
„Hann hefur pikkað þetta upp einhvers staðar, það er einhver sem hefur haft þetta fyrir honum. Því eftir því sem ég hef kynnst þá eru börn ekki svona hatursfull.“
Ofangreint er aðeins brot að þeim sögum sem birtust í athugasemdum við færslu Valgerðar. Úr athugasemdunum má lesa mikla fordóma sem í samfélaginu okkar ríkja gagnvart þeim sem falla utan hins skandinavíska norms. Fordómar sem felast í andúð gagnvart þeim sem ekki tala íslensku, þeim sem ekki eru hvítir, þeim sem ekki eru kristnir og þeim sem eiga blandaðar fjölskyldur. Einn heimildarmanna DV sagði að þeir Íslendingar sem haldnir eru svona fordómum mættu því líta í eigin barm og muna eftir náungakærleiknum. DV mun halda áfram að birta frásagnir af fólki sem hefur upplifað fordóma hér á landi.