Ef þú ert á leið til Danmerkur á næstu dögum er góð ástæða til að gleðjast því sumarið heldur innreið sína þar í landi í næstu viku ef veðurspár ganga eftir. Spáð er allt að 25 stiga og mikilli sól í næstu viku og verður ekki amalegt að njóta lífsins á danskri grund ef þetta gengur eftir. Sólarvörn og sumarföt ættu því að fara ofan í tösku þeirra sem eru á leið til Danmerkur næstu daga.
Fyrstu merki sumarblíðunnar muni sjást á sunnudaginn þegar hitinn verður á bilinu 14 til 19 gráður en aðeins svalar út við strendur landsins vegna hafgolu. Danska veðurstofan segir að hægviðri verði um allt land og því kjörið útivistarveður.
Þegar vinnuvikan hefst fer síðan að hlýna enn meira. Á mánudaginn er spáð 15 til 20 gráðum, 20-21 gráðu á þriðjudag og miðvikudag. Á fimmtudaginn er síðan útlit fyrir 22 til 25 gráður, hlýjast á miðju Sjálandi og Jótlandi. Spáð er björtu veðri og mikilli sól alla næstu viku svo nú er bara að gíra sig upp fyrir ferð til Danmerkur nú eða bara sitja heima og öfunda Dani af blíðunni.