„Það er víst varla gerlegt að reka þingmann. En það þýðir ekki að það sé hægt að bjóða þingkonum, sem hafa setið undir ofbeldisþrunginni orðræðu annarra þingmanna, að þurfa yfir höfuð að starfa daglega í sama rými og þeir,“ segir Auður Jónsdóttir rithöfundur og vísar þar í þingmennina sex í hinu svokallaða Klausturmáli. Er það mat Auðar að sitji þingmennirnir áfram sé það hreinlega ofbeldi í garð þeirra kvenna sem þurftu að þola hatursfull og níðrandi ummæli í sinn garð.
Í pistli sem birtist á vef Kjarnans bendir Auður á að kynveran sé notuð til að smækka konur í stjórnmálum. Níðrandi ummæli í garð kvenna, líkt og þau sem koma fram á upptökunni af Klaustri,séu sprottin af því að konurnar ögra stöðum karlanna.
„Konur sem þeir eru sennilega að einhverju leyti smeykir við dags daglega eða þá óttast að þær ógni grundvellisínum svo þeir fá útrás fyrir frústrasjón með því að tala um þær, hvorn við annan, á þennan hátt,“
ritar Auður og bætir við á öðrum stað að það þurfi „ansi frústreraða karlmenn til að smætta sömu konuna með því annars vegar að tala um að hún leiki sér að karlmönnum og hins vegar að það sé hægt að ríða henni.“
„Og það þarf illa upplýst fólk til að hæðast, útbelgt af mannfyrirlitningu, að fólki út frá kynhneigð, fötlun og kyni. Þessi stund, sem þessir þingmenn virðast vilja meina að hafi bara verið röfl nokkurra vina sem voru búnir að fá sér einum of mikið í tána, stinkaði af hatursorðræðu.“
Auður spyr jafnframt hvort fólk sem „sé blindað af mannfyrirlitningu og gjörsneytt samlíðan, skilning og virðingu“ sé fært um að taka ákvarðanir í umboði almennings.
„Því þó að mennirnir vilji halda því fram að þeir hafi ekki gert neitt af sér annað en að verða sér til skammar, þá er staðreyndin sú að tal þetta ber vott um huga mengaða af kvenfyrirlitningu, mannhatri, gunguskap, karlrembu, fordómum og úreltum viðhorfum. Kjörnir fulltrúar, þingmenn á Alþingi, geta ekki leyft sér að daðra við hatursorðræðu, sama hversu marga bjóra þeir hafa innbyrt. Og það bjó ofbeldi í orðum þeirra og því er ekki hægt að horfa framhjá.“
Auður bendir jafnframt á að téðir þingmenn séu varla hæfir til að setja gott fordæmi fyrir vinnustaðamenningu landans og þó svo að einhverjir úr hópnum hafi stigið fram og beðist afsökunar þá sé ekki hægt að líta fram hjá því að orðin sem féllu á Klaustri hafi verið „svo niðrandi og niðurlægjandi að upplifunin af þeim getur orðið „erfið og lúmsk; flókin, þaulsætin og í versta falli niðurbrot.“
Að mati Auðar er það ofbeldi gagnvart umræddum konum ef að þessir þingmenn fá að sitja áfram.
„Ef svo mikið sem ein af þessum konum upplifir vanlíðan eða efasemdir um sjálfa sig í kringum þá hafa orð þeirra náð að gera einmitt það sem þeir virðast hafa viljað í ölæðinu: … að hjóla í hana! Þessir karlar, og konan, þurfa að sjá sóma sinn í að segja af sér og fara með skömmina þangað sem hún á heima. Hjá þeim.“